Sámur 3. tbl 42. árg 2015 | Page 20

Þjónustuhundur ársins Eldeyjar Hugi er þjónustuhundur ársins 2015 Flest útköll sem Hugi fer í eru leitarútköll á höfuðborgarsvæðinu, hálendinu og á þekktum gönguleiðum úti á landi. Á hálendinu er aðallega leitað eftir týndum eða slösuðum ferðamönnum. Í þéttbýli er helst leitað að ungum börnum eða fólki með alzheimer. Hugi hefur farið í ótal útköll á þessum sex árum á útkallslista. Meðal annars kom Hugi að stórri leit á Sólheimajökli en í það skiptið var leitað að sænskum ferðamanni. Þessi leit var sérstaklega hættuleg þar sem jökullinn var erfiður yfirferðar, með djúpar sprungur og mjög háll. Hugi fór í sína fyrstu vatnaleit í Skagafirði en þá var hann um borð í slöngubát sem siglt var um ósa Hofsóss. Eitt útkall er sérstaklega eftirminnilegt en þá var Hugi var sendur með þyrlu norður í land til þess að leita að týndum gangnamanni sem hafði verið við smölun. Þegar þyrlan var lent og verið var að setja upp leitarsvæði fyrir teymið fannst maðurinn og fór Hugi með þyrlunni aftur til Reykjavíkur. Hugi fæddist 25. ágúst 2007 og er því orðinn átta ára gamall. Hugi kom á núverandi heimili sitt átta vikna og hóf þjálfun hjá Leitarhundum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar aðeins þriggja mánaða gamall. Hann lauk fyrsta leitarprófi sínu sev mánaða gamall (2008) en það var C-próf í snjóflóðaleit. Síðar sama ár lauk hann C-prófi í víðavangsleit, þá tæplega eins árs. Hann komst á útkallslista hjá björgunarsveitunum eftir B-próf í snjóflóðaleit 18 mánaða (2009) og á útkallslista síðar sama ár í víðavangsleit þegar hann lauk B-prófi tæplega tveggja ára gamall. Árið eftir (2010) lauk hann A-prófi í snjóflóða- og víðavangsleit og var þá orðinn fullþjálfaður leitarhundur og hefur síðan þá viðhaldið A-prófi með endurmati og verið á útkallslista alla tíð bæði í snjóflóðaleit og víðavangsleit. Hugi þykir afburðagóður leitarhundur. Schäfer er þekktur fyrir að vera mjög húsbóndahollur og því telst sjálfstæði Huga í víðavangsleit sérstakt fyrir hunda af hans tegund. Síðustu ár hefur Hugi verið eini schäferhundurinn á Íslandi sem er á útkallslista björgunarsveitanna. Einnig er hann mjög öruggur í leit og lætur ekkert trufla sig, svo sem fólk eða hunda, önnur dýr, farartæki og svo framvegis. Hann hefur ávallt lokið öllum leitarprófum eins ungur og mögulegt er og án athugasemda. Hugi hefur einnig sinnt fjölmörgum öðrum sjálfboðaliðastörfum með björgunarsveitinni. Hann hefur til að mynda farið nokkur sumur í hálendisgæslu björgunarsveitanna og tekið þátt í sölu neyðarkallsins. Hugi starfar sem áður sagði með Leitarhundum og Björgunarsveitinni Ársæl í Reykjavík og mun gera það áfram á meðan hann hefur heilsu til. Eigandi hans og þjálfari er Theodór Bjarnason. Sendum út á land