Sámur 3. tbl 42. árg 2015 | Page 18

Lítil saga af Baxter og Bessu Mjöll Höfundur og ljósmyndir: Erna Hrefna Sveinsdóttir Það var dag einn í lok nóvember 2011 að bóndi minn var sem oft áður á rölti á bæjarhlaðinu. Að þessu sinni í félagsskap Baxters, sex ára gamals hunds af boxerkyni. Baxter var nýkominn í fóstur til okkar þarna rétt undir jólin. Hann var mikill vexti og stæðilegur, stórlyndur og hafði ríkt varðeðli. Farið var að rökkva þegar gangan hófst. Veður var rysjótt, hvassviðri og gekk á með dimmum éljum. Við vorum búsett á kirkjustað, nokkuð frá annarri byggð en þó mátti grilla í ljós þaðan á milli élja. Baxter var hlýðinn og tryggur nýjum húsbændum og fylgdi þeim jafnan fast eftir en þarna í miðri gönguferðinni tók hann skyndilega á rás og stefndi einbeittur að kirkjudyrunum. Stökk léttilega upp kirkjutröppurnar og staðnæmdist á þeirri efstu þar sem hann stóð svo grafkyrr og starði niður á eitthvað, að því er virtist. Bóndinn kallaði til hundsins í fyrstu, sem virtist ekkert heyra, svo að sá fyrrnefndi fór að gá hverju sætti. Í fyrstu kom hann auga á litla, gráa þúst í horninu við dyrnar. Það reyndist við nánari athugun vera hálfstálpaður kettlingur sem lá þarna í hnipri og hafði greinilega leitað skjóls frá veðrinu, þar sem ylinn lagði undan óþéttum kirkjudyrunum. Það var algerlega óvíst hver örlög kattarins yrðu þarna undir ströngu tilliti Baxters, sem við vissum að var alveg óvanur köttum. Örlög kisu réðust á þessum tímapunkti. Bóndinn skipaði Baxter að fylgja sér og bjóst til þess að ganga burt frá kettinum og freista þess að fá athygli hundsins af honum. Hann kom lötrandi á eftir hinum nýja húsbónda sínum, en hikandi. Á þessu augnabliki virtist eins og það hefði myndast einhver óskiljanleg tenging milli dýranna, sem er best lýst þannig að Baxter bauð kisu að elta sig heim á leið – og hún þáði boðið. Nokkur spotti var heim í hús en kisa litla fylgdi í humátt á eftir hundi og manni. Baxter gætti þess að hafa auga með henni á heimleiðinni. Þegar húsbóndinn opnaði útidyrnar fylgdi kötturinn hundinum óhikað inn úr storminum og hríðinni. Fyrsta verk kisu litlu var nú að leita sér ætis og vatns. Hún fór beint í matardalla Baxters, sem stóð yfir henni og mændi á hana athafna sig en aðhafðist ekkert. Kötturinn naut einhverrar óskiljanlegrar friðhelgi. Augljóst var að hann var langsoltinn, blautur og máttfarinn. Holdafarið var afar rýrt og hár hans strítt. Þetta var greinilega samt ekki villiköttur og líklegast virtist, miðað við aðstæður og ástand hans, að hann hefði verið borinn út af eigendum sínum. Hafist var handa við að hlúa að kisu litlu, næra, þurrka og verma. Baxter fylgdist með þessu öllu af athygli. Við fórum með kisu á dýraspítala þar sem ekkert örmerki fannst en hún talin vera um það bil fjögurra mánaða, smávaxin læða eftir skoðun og aðhlynningu. Í samráði við dýralækna varð það úr að við fyndum henni nýtt heimili ef réttur eigandi 18 · Sámur 3. tbl. 42. árg. desember 2015