Sámur 1. tbl 37. árg 2014 | Page 20

Hvatning til hundaeigenda Höfundur: Heiðrún Villa Margir lenda í því að vilja sjá breytingar hjá hundinum sínum. Á sumum heimilum hefur slæm hegðun byrjað sem saklaus viðbrögð við einhverju áreiti en undið upp á sig og eigendur eru komnir í hálfgert þrot með hundinn sinn. Á öðrum stöðum er þolið gagnvart óhlýðni orðið ótrúlega mikið og fólk er farið að aðlagast stjórnleysinu og lifir í stressi og streitu daglega án þess að gera sér grein fyrir hvað áhrif það hefur, bæði á heimilisfólk og heimilishundinn. Sumstaðar gengur vel en einhver ein hegðun virðist sitja föst í hundinum og eigendur virðast ekki kunna lausn á og skapar það oft pirring við hundinn. En hvað þarf að gerast til að breyting verði á? Hvernig getum við breytt einhverju hjá hundinum sem er orðið að slæmum vana? Lausnin í því felst í að skoða okkar eigin slæmu vana. Hugurinn stjórnast mikið af vana. Hegðunarmynstur verður til og oft festist það og verður vani. Stundum þarf nokkrar endurtekningar en stundum þarf bara eitt skipti til þess að vani þróast og festist. Við mannfólkið könnumst flest við að vera með einhverja slæma vana, hvort sem þeir tengist einhverju sem er gert eða hugsað. Þessir slæmu vanar geta til dæmis verið eftirfarandi: Að eiga erfitt með að láta nammið á stofuborðinu í friði, vera neikvæður gagnvart peningum hver mánaðamót, láta eitthvað í fari einhverrar manneskju fara í taugarnar á sér, geta ekki farið á fætur án kaffibollans og svo mætti lengi telja. Þetta telst allt sem vani. Það góða við vana er að honum er hægt að breyta - og líka hjá hundum. Hugur hunda stjórnast mikið af vana og eins og það er hægt að þróa með sér slæman vana þá er líka hægt að breyta honum og búa til góðan í staðinn. Við þurfum sérstakan hugsunarhátt til þess að breyta vana, hvort sem það er hjá okkur eða hundinum. Þessi hugsunarháttur er mikilvægur áður en árangri er náð, sama hvaða leið er síðan farin í átt að árangrinum. Það fyrsta er að taka fulla ábyrgð á sjálfum sér/hundinum sínum og hætta að kenna utanaðkomandi áreiti eða aðstæðum um hvernig stöðu þú/hundurinn þinn er kominn í. Þegar þú hefur áttað þig á þessu mikilvæga atriði til þess að koma þér/hundinum þínum lengra ertu að taka mikilvægt skref í átt að árangri. Enginn kennir betur en hundurinn sjálfur og enginn staður né stund er betri til að læra en í líðandi stund. 20