Myndir mánaðarins Ágúst 2018 tbl. 295 Bíóhluti | Page 8

Bíófréttir – Væntanlegt
Shazam mætir á svæðið !
Hér að framan minntumst við á að Aquaman væri sjötta myndin í hinum sameinaða ofurhetjuheimi DC-Comics og því er við hæfi að minnast einnig á sjöundu myndina sem áætlað er að verði frumsýnd í apríl á næsta ári . Shazam , eða Billy Batson réttu nafni , er ungur munaðarleysingi sem flækst hefur á milli fósturheimila og iðulega orðið fyrir aðkasti jafnaldra sinna í öllum þeim skólum sem hann hefur sótt . Kvöld eitt á heimleið í lest , eftir að hafa flúið undan nokkrum bullum sem voru að gera honum lífið leitt , gerist eitthvað undarlegt og Billy er gefinn sá hæfileiki að um leið og hann segir „ shazam “ þaðan í frá breytist hann í fullorðinn mann í ofurhetjubúningi . Ásamt nýjasta fósturbróður sínum , Freddy , þarf Billy nú að finna út úr því hvaða ofurhæfileika hann hefur og hvernig þeir koma honum og samfélaginu mest og best að gagni .
Hér er sem sagt um grín-ofurhetjumynd að ræða eins og allir átta sig á sem sjá glænýja stikluna úr henni , en þess má geta að Billy er hinn upphaflegi Captain Marvel frá árinu 1941 . Sú upprunasaga er þó ekki sögð í þessari mynd og bíður því vafalaust betri tíma .
Godzilla næsta sumar
Ef einhver hélt að hin japanska Godzilla væri búin að syngja sitt síðasta má sá hinn sami vita að þar er farið með fleipur því Godzilla mætir í bíó á ný í lok maí á næsta ári , hressari en nokkurn tíma fyrr og til í slaginn ... sem í þetta sinn snýst um sjálf heimsyfirráðin . Myndin er þriðja myndin í svokölluðum „ MonsterVerse “ sem er samvinnuverkefni Legendary Films og Warner Bros ., en fyrsta myndin í seríunni var Godzilla-myndin sem var frumsýnd 2014 og númer tvö var Kong : Skull Island , sem var frumsýnd í fyrra . Fjórða myndin verður síðan frumsýnd 2020 og heitir Godzilla vs . Kong .
8 Myndir mánaðarins
Í Godzilla : King of Monsters gerist það að Godzilla lendir í harðvítugum átökum við önnur öflug skrímsli , t . d . hið fleyga fiðrildaskrímsli Mothra og drekann Rodan og ekki síst við erkióvin sinn , hinn þríhöfða King Ghidorah . Öll berjast þessi skrímsli um yfirráðin á Jörðu og þegar bardaginn hefst má maðurinn sín lítils og horfir fram á algera útrýmingu takist vísindamönnunum í Monarch-teyminu ekki að finna einhver ráð sem duga . Sjáið glænýja og hörkuflotta stikluna !
Bardagaengillinn Alita
Við höfum áður sagt lítillega frá myndinni Alita : Battle Angel hér í blaðinu en hún er byggð á manga-sögum Yukitos Kishiro um Alitu sem komu út á árunum 1990 – 1995 og náðu miklum vinsældum , bæði í Japan og víðar . Aðalframleiðandi myndarinnar er James Cameron og leikstjóri er Robert Rodriguez og voru þeir á dögunum að senda frá sér glænýja stiklu úr myndinni í fullri lengd , þ . e . tveggja og hálfrar mínútu langa . Hún er vægast sagt alveg mögnuð , þ . e . fyrir þá sem kunna að meta hasar og tæknibrellur í einum stórum pakka sem hefur áreiðanlega kostað nokkra tugi milljarða að búa til . Eins og staðan er núna er frumsýningardagur myndarinnar 21 . desember , sami dagur og frumsýna á Aquaman . Kíkið endilega á þessa nýju stiklu úr Alitu – við lofum því að þeir sem gaman hafa af svona manga / hasar / vísindaskáldskap verða ekki fyrir neinum vonbrigðum með hana .
Velkomin aftur – eða þannig
Það áttu ekki margir von á miklu þegar leikstjórinn John McTiernan sendi frá sér sína aðra mynd árið 1987 , Predator . Hún var að vísu með Arnold Schwarzenegger í aðalhlutverki og því nokkuð ljóst að um hasar væri að ræða en annars vakti hún enga sérstaka athygli fyrr en hún var frumsýnd . Í ljós kom nefnilega að myndin var í alla staði frábær skemmtun enda er hún fyrir löngu komin í hóp „ cult “ -mynda níunda áratugar síðustu aldar . Predator gat síðan af sér tvær framhaldsmyndir , Predator 2 og Predators auk tveggja „ spin off “ -mynda , Alien vs . Predator og Alien vs . Predator : Requim .
Þann 14 . september er von á fjórðu Predator-myndinni sem í þetta sinn er leikstýrt af Shane Black , sem einnig skrifar handritið , en Shane er sem leikstjóri þekktastur fyrir Kiss Kiss Bang Bang , Iron Man 3 og The Nice Guys , auk þess sem hann skrifaði handrit Lethal Weapon-myndanna og bestu myndar Rennys Harlin , The Long Kiss Goodnight . Nýja myndin gerist í nútímanum ( höldum við ) og segir frá því þegar ungur drengur kallar fyrir slysni á hinar ægilegu geimverur sem láta ekki bjóða sér tvisvar í heimsókn , enda klæjar þær í neglurnar eftir því að útrýma mannkyninu í eitt skipti fyrir öll . Kíkið á stikluna , hún er hörkugóð og æsispennandi ein og sér .