Myndir mánaðarins Ágúst 2018 tbl. 295 Bíóhluti | Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt
Chris Hemsworth er einn af sjömenningunum á El Royale .
Allt vitlaust á El Royale
Ein af myndum októbermánaðar heitir Bad Times at El Royale og er eftir leikstjórann og handritshöfundinn Drew Goddard sem gerði m . a . myndina Cabin in the Woods og skrifaði handritin að World War Z og The Martian . Myndin gerist á afskekktu hóteli sem heitir El Royale en hermt er að það sæki fyrirmyndina í hótelið Cal Neva Resort and Casino sem Frank Sinatra átti á sínum tíma . Athygli vakti að handrit myndarinnar var ekki sett á almennan markað og þeir sem vildu sjá það þurftu að skrifa undir trúnaðareið , lesa það á staðnum og skila því aftur . Af þeim sökum vita afskaplega fáir hvernig söguþráðurinn er í raun en hin opinbera lýsing á honum er svona :
Sjö gerólíkar persónur sem hafa allar eitthvað að fela hafa safnast saman á El Royale , en hótelið sjálft á sér einnig dökka fortíð . Á einni nóttu mun allt þetta fólk fá eitt tækifæri í viðbót – áður en allt fer til andskotans .
Með hlutverk sjömenninganna fara þau Chris Hemsworth , Jon Hamm , Dakota Johnson , Jeff Bridges , Cailee Spaeny , Lewis Pullman og Cynthia Erivo , en einnig koma talsvert við sögu persónur sem þeir Nick Offerman og Mark O ’ Brien leika . Takið eftir Chris Hemsworth á myndinni hér efst því hann lék í þessari mynd strax eftir Avengers : Infinity War og þurfti fyrir gerð hennar að losa sig við 11 kíló af massanum sem hann safnaði fyrir hlutverk sitt sem Þór .
Septemberhrollurinn
Það er alltaf gaman að krydda bíótilveruna með því að skella sér á eins og eina hrollvekjandi og virkja um leið innkirtlana til adrenalínframleiðslu .
Septemberhrollvekjan að þessu sinni nefnist The Nun og er eftir Corin Hardy sem sendi síðast frá sér myndina The Hallow . Sagan , sem er eftir James Wan , segir frá ungri nunnu sem fer ásamt presti einum til Rúmeníu að rannsaka dauða þarlendrar nunnu í nunnuklaustri . Ekki líður á löngu uns þau eiga sjálf á hættu að týna lífinu , en við segjum betur frá því sem gerist í næsta blaði . Skoðið stikluna !
Wyatt Russell í hlutverki sínu í Overlord .
Hinum megin við víglínuna
Overlord nefnist nýjasta bíómynd leikstjórans Juliusar Avery sem einnig skrifaði handritið og á að baki myndina Son of a Gun frá árinu 2014 . Glöggir lesendur kannast ef til vill við heitið „ Overlord “ en það var einmitt dulnefnið sem Bandamenn notuðu um innrásina í Normandy á D-deginum svokallaða 6 . júní 1944 . Myndin gerist einmitt á þeim degi og segir frá nokkrum hermönnum sem ætlað er að kasta sér út í fallhlífum aftan við víglínu Þjóðverja og trufla þá aftanfrá . Þetta er mikil hættuför og þegar flugvélin sem þeir eru í verður fyrir skotum neyðast þeir til að henda sér út þar sem þeir eru staddir . Þar með lenda þeir auðvitað á allt öðrum stað en þeir höfðu gert ráð fyrir . Það sem þeir uppgötva þar er líka í órafjarlægð frá því sem þeim gat dottið í hug að finna og áður en þeir vita af eiga þeir fótum fjör að launa undan óvini sem er allt annar en nokkur þeirra gat nokkurn tíma átt von á að hitta .
Við segjum ekki meira hér um hvað gerist en fjöllum að sjálfsögðu betur um þessa sérstöku mynd í októberblaðinu . Þeir sem eru forvitnir geta auðvitað farið á netið og skoðað magnaða stikluna .
Uppgjöf er ekki valkostur
Og talandi um forvitnilegar myndir þá ljúkum við þessari yfirferð okkar að þessu sinni um væntanlegar myndir með því að benda lesendum á að kynna sér nýjustu mynd Steves McQueen sem væntanleg er í nóvember , Widows , en hún er byggð á samnefndri breskri sjónvarpsseríu frá árinu 1985 sem varð geysivinsæl . Sagan er um fjórar konur sem verða ekkjur þegar eiginmenn þeirra eru allir skotnir eftir misheppnað bankarán . Þar með verða þær ábyrgar fyrir skuldum þeirra , ekki bara þessum venjulegu heldur einnig skuldum við glæpafélaga þeirra og mafíuforingja svæðisins . Í stað þess að lyppast niður og gefast upp ákveða þær að taka málin í sínar hendur og sýna úr hverju þær eru gerðar .
Með aðalhlutverkin fer hópur þekktra leikara með þeim Violu Davis , Colin Farrell , Liam Neeson , Michelle Rodriguez , Carrie Coon , Lukas Haas , Robert Duval og Daniel Kaluuya í broddi fylkingar .
12 Myndir mánaðarins