Myndir mánaðarins Ágúst 2017 tbl. 283 bíóhlutihluti | Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt
Edda Björgvinsdóttir leikur Ingu sem er staðráðin í að tréð sem heiti myndarinnar vísar í verði ekki fellt , a . m . k . ekki á meðan hún dregur andann . Það segir enginn Ingu fyrir verkum !
Steindi leikur Atla sem lendir í óvægnum deilum við barnsmóður sína um umgengnisrétt eftir að hún hendir honum út af heimili þeirra .

Undir trénu til Feneyja

Eins og kvikmyndaáhugafólk hefur eflaust frétt stóð til að frumsýna nýjustu mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar , Undir trénu , 23 . ágúst . Þeirri áætlun var hins vegar breytt undir lok júlí þegar það boð barst frá forráðamönnum kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum , elstu og einnar virtustu kvikmyndahátíðar heims , að Undir trénu hefði verið valin til að keppa til verðlauna þar í flokknum Orizzonti , fyrst íslenskra kvikmynda í fullri lengd . Skilyrði fyrir þátttöku er hins vegar að myndin verði heimsfrumsýnd á hátíðinni og því ákváðu aðstandendur hennar að fresta frumsýningum annars staðar fram til 6 . september , en Feneyjahátíðin fer fram dagana 30 . ágúst til 9 . september . Það verður gaman að sjá árangurinn .
Undir trénu er eins og áður sagði nýjasta mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem á að baki hinar afar góðu myndir Á annan veg og París norðursins . Myndin er sögð dramatísk upplifun með eitruðum húmor og þrillerkenndu ívafi en hún segir frá hjónunum Ingu og Baldvini sem lenda í stigvaxandi deilum við nágranna sína , Eybjörgu og Konráð , vegna trés á lóð þeirra fyrrnefndu sem er farið að skyggja verulega á lóð þeirra síðarnefndu . Á sama tíma lendir sonur Ingu og Baldvins , Atli , í vanda þegar barnsmóðir hans , Agnes , kemur að honum að horfa á gamla kynlífsupptöku . Hún hendir honum út með það sama þannig að Atli neyðist til að flytja inn á gömlu og lendir svo í framhaldinu í hörkudeilum við Agnesi út af umgengnisrétti við dóttur þeirra . Þessar aðskildu deilur verða síðan stöðugt harðari , eignaspjöll eru framin , gæludýr byrja að hverfa og að því kemur að flugbeitt keðjusög er gangsett .
Lego-kubbamyndirnar frá Disney hafa notið mikilla vinsælda í kvikmyndahúsum hjá fólki á öllum aldri enda bráðskemmtilegar , sérlega frumlegar og afar fyndnar . Í september er von á einni slíkri mynd til sem nefnist á frummálinu The LEGO Ninjago Movie . Hún segir frá kubbastráknum Lloyd sem ásamt nokkrum félögum sínum æfir ninjabardagalistir á kvöldin sem kemur sér vel í baráttunni við öfl og óvættir sem vilja heimaborg þeirra , Ninjago , ekkert vel . Á daginn á Lloyd hins vegar í annars konar átökum því vegna þess að hann er sonur hins herskáa og að margra mati illa Garmadons sem hugsar í heimsyfirráðum eða dauða ( helst samt heimsyfirráðum ) þá nýtur hann ekki velvilja skólafélaganna sem forðast hann reyndar eins og heitan eldinn .
Um leið og Lloyd og félagar hans skerpa á hæfileikum sínum undir stjórn ninjakennarans Sensei Wu þarf Lloyd því að takast á við föður sinn og helst að fá hann til að hætta allri þessari heimsyfirráðavitleysu .
Lloyd og félagar eru engin lömb að leika sér við þegar þeir eru komnir í ninjabúningana og tilbúnir í átök .
Garmadon er herskár faðir Lloyds og stefnir að heimsyfirráðum .
Ninjakennarinn og bardagaséníið Sensei Wu kennir Lloyd og félögum allt það nýjasta í bardagatækninni .
12 Myndir mánaðarins