Myndir mánaðarins September 2018 tbl. 296 Bíóhluti | Page 10

Væntanlegt í október
Life Itself er nýjasta mynd leikstjórans Dans Fogelmans sem hefur aðeins sent frá sér eina mynd áður sem leikstjóri , hina þrælgóðu Danny Collins sem margir töldu eina bestu mynd ársins 2015 . Þess utan hefur Dan skapað sér nafn sem handritshöfundur en hann skrifaði m . a . handrit myndanna Crazy , Stupid , Love og Last Vegas auk þess að vera höfundur hinna lofuðu sjónvarpsþátta This Is Us .
Life Itself segir frá parinu Will og Abby sem hittist fyrst í menntaskóla og ákveða að eyða lífinu saman . Eins og með flest önnur sambönd á eftir að reyna á þeirra samband í lífsins ólgusjó , ekki síst eftir að þau eignast sitt fyrsta barn og skuldbindingin verður enn meiri en áður .
Myndin verður frumsýnd hér á landi í október en orðrómurinn segir að hún sé mjög líkleg til að blanda sér í baráttuna á verðlaunapöllunum þegar árið verður gert upp . Með aðalhlutverkin fara þau Oscar Isaac og Olivia Wilde , ásamt Annette Bening , Mandy Patinkin , Olivia Cooke , Jean Smart , Antonio Banderas , Samuel L . Jackson og Lorenzu Izzo .
Það bíða margir eftir að sjá hvernig Bradley Cooper hefur tekist til við gerð sinnar fyrstu myndar sem leikstjóri , en hún heitir A Star is Born og er eins og flestir vita byggð á samnefndri mynd frá árinu 1937 með þeim Fredric March og Janet Gaynor í aðalhlutverkum . Sagan var síðan endurgerð af George Cukor árið 1954 með James Mason og Judy Garland í aðalhlutverkunum og svo aftur af Frank Pierson árið 1976 , en þar voru Kris Kristofferson og Barbra Streisand í aðalhlutverkum .
Þann 5 . október er sem sagt komið að útgáfu Bradleys Cooper sem leikur sjálfur aðalhlutverkið ásamt Lady Gaga . Fyrsta stiklan úr myndinni lofar góðu og eru margir í Hollywood farnir að gera því skóna að myndin verði ein þeirra sem keppa muni um Óskarsverðlaunin á næsta ári . Það kæmi ekki á óvart ef svo verður . Þeir sem kunna að meta átök og hörkuhasar ættu að kynna sér myndina Hunter Killer sem frumsýnd verður í október en hún er eftir leikstjórann Donovan Marsh og er framleidd af sama teymi og gerði myndina London Has Fallen , þar á meðal Gerald Butler sem einnig leikur aðalhlutverkið , kafbátaforingjann Joe Glass . Handritshöfundar eru þeir Jamie Moss og Arne Schmidt en sagan er byggð á skáldsögunni Firing Point eftir þá George Wallace og Don Keith . Myndin segir frá því þegar rússneskur hershöfðingi svíkur lit og hrifsar til sín völdin í heimalandinu með því að ræna forsetanum . Um leið verður ljóst að þriðja heimsstyrjöldin er yfirvofandi ! Kíkið endilega á frábæra stikluna .
Bradley Cooper og Lady Gaga í hlutverkum sínum sem þau Jackson og Ally en A Star is Born er spáð miklum vinsældum í október .
10 Myndir mánaðarins