Myndir mánaðarins Október 2017 tbl. 285 Bíó | Page 23

Borg vs McEnroe
Viðureignin sem enginn gleymir
Úrslitaleikurinn á Wimbledon-tennismótinu í London 5 . júlí 1980 er án nokkurs vafa einhver merkilegasti og mest spennandi íþróttaviðburður sögunnar en í honum mættust hinn rólyndi Svíi og fjórfaldi Wimbledon-meistari Björn Borg og hinn bráði og skapstóri Bandaríkjamaður John McEnroe sem hafði aldrei áður leikið til úrslita á Wimbledon .
Borg vs McEnroe er fyrsta bíómynd danska leikstjórans Janusar Metz sem fram að gerð hennar var fyrst og fremst þekktur fyrir afar góðar heimildarmyndir sínar , sér í lagi myndina Armadillo sem er talin ein besta heimildarmynd ársins 2010 . Hér segir hann okkur forsöguna að þessum magnaða úrslitaleik á Wimbledon-mótinu árið 1980 sem óhætt er að fullyrða að sé einn mest spennandi tennisleikur sögunnar . Um leið er skyggnst á bak við tjöldin í lífi beggja keppenda og hvað þeir þurftu að leggja á sig til að ná upp á toppinn í tennisheiminum , en þeir þóttu eins ólíkar manngerðir og hugsast gat . Þeir Shia LaBeouf og Sverrir Guðnason þykja túlka þá McEnroe og Borg af snilld og hápunkturinn er svo úrslitaleikurinn sjálfur ...
Borg vs McEnroe Sannsögulegt
Aðalhlutverk : Shia LaBeouf , Sverrir Guðnason , Stellan Skarsgård , Tuva Novotny , David Bamber , Björn Granath , Robert Emms , Jane Perry og Tom Datnow Leikstjórn : Janus Metz Bíó : Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri
Shia LaBeouf og Sverrir Guðnason ásamt leikstjóranum Janusi Metz og Stellan Skarsgård sem leikur þjálfara Björns , Lennart Bergelin .
Veistu svarið ? Sverrir Guðnason er Íslendingur , ólst upp í Reykjavík en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar árið 1990 . Hann hefur tvisvar hlotið sænsku kvikmyndaverðlaunin , annars vegar fyrir leik sinn í myndinni Flugparken og hins vegar fyrir leik í ... hvaða mynd ?
107 mín
Frumsýnd 13 . október Punktar ....................................................
Monica Z .
Shia LaBeouf og Sverrir Guðnason leika þá John McEnroe og Björn Borg og eins og sjá má í samanburði við myndina hér fyrir neðan sem var tekin fyrir leikinn sjálfan á Wimbledon 1980 var mikil áhersla lögð á að bæði útlit þeirra og öll umgjörð væri sem næst raunveruleikanum .
l Þeir Björn Borg ( f . 1956 ) og John Mc- Enroe ( f . 1959 ) höfðu fyrir úrslitaleikinn á Wimbledon 1980 mæst sjö sinnum áður á tennismótum og var staðan í innbyrðis viðureignum þeirra 4-3 fyrir Borg . Alls mættust þeir síðan 22 sinnum á ferlinum ef öll mót eru talin með , bæði opin og lokuð , svo og sýningarleikir , og unnu hvor um sig ellefu leiki . Vegna þess hversu ólíkar persónur þeir voru , Borg þessi rólega og yfirvegaða týpa á meðan McEnroe var afar skapbráður og frægur fyrir útistöður sínar og háværar deilur við dómara á leikjum sínum , var fljótlega byrjað að tala um að viðureignir þeirra væru eins og barátta á milli íss og elds .
l Þeir Sverrir Guðnason og Shia Labouf lögðu mikið á sig til að læra tennis fyrir gerð myndarinnar auk þess sem þeir þurftu að koma sér í fantaform . Þeir þykja báðir vinna stóra leiksigra í hlutverkum sínum og það kæmi ekki á óvart ef þeir yrðu víða tilnefndir til verðlauna fyrir túlkun sína þegar kvikmyndaárið 2017 verður gert upp .
l Í myndinni er einnig farið dálítið aftur í tímann og sá sem leikur Björn Borg ungan er í raun sonur hans , Leo Borg , en Björn var sjálfur ráðgefandi við gerð myndarinnar .
Myndir mánaðarins 23