Myndir mánaðarins Nóvember 2017 tbl. 286 Bíó | Page 32

Wonder Við erum ekki öll eins August Pullman, alltaf kallaður Auggie, þjáist af sjaldgæfum litningagalla sem hefur afmyndað andlit hans. Af þeim sökum þarf hann að glíma við fordóma og útskúfun flestra á hans aldri, m.a. í skólanum. Gæfa hans er að eiga að góða, jákvæða og samheldna fjölskyldu sem styður hann með ráðum og dáð og hvetur hann áfram. En stundum er jafnvel það ekki nóg. Raquel Jaramillo var stödd í ísbúð ásamt þriggja ára syni sínum að bíða eftir að röðin kæmi að þeim þegar að bar foreldra með unga dóttur sína sem var afmynduð í andliti. Dauðhrædd um að sonur sinn myndi byrja að stara og benda á stúlkuna og spyrja óþægilegra spurninga eins og lítil börn gera reyndi hún í flýti að forða því að hann sæi hana. Andartaki síðar þegar hún leit í augu stúlkunnar og foreldra hennar áttaði hún sig á því að þar með hafði hún gert mikil mistök og brugðist kolrangt við aðstæðunum. Þetta atvik varð Raquel mikið umhugsunar- og rannsóknarefni sem leiddi til þess að hún skrifaði skáldsöguna Wonder og gaf hana út í febrúar 2012 undir höfundarheitinu R. J. Palacio. Bókin varð fljótlega afar vinsæl en hún segir frá hinum 10 ára gamla Auggie sem vegna svokallaðs Treacher Collins-heilkennis hefur afmyndast í andliti og af þeim sökum alist upp í verndaðra umhverfi en flestir gera. Nú er hins vegar komið að því að hann fari í bekk í venjulegum skóla með jafnöldrum sínum og um leið og fyrsti skóladagurinn hefst þarf hann að læra að takast á við lífið og fordómana á annan hátt en hann er vanur og meira upp á eigin spýtur en áður. Og nú er sem sagt búið að kvikmynda þessa áhrifaríku metsölubók í leikstjórn Stephens Chbosky og það má nokkuð örugglega lofa að myndin muni líða þeim seint úr minni sem sjá hana. Wonder Drama Aldurstakmark ekki fyrirliggjandi fyrir prentun 113 mín Aðalhlutverk: Jacob Tremblay, Julia Roberts, Owen Wilson, Mandy Patinkin, Daveed Diggs, Izabela Vidovic, Emma Tremblay, Noah Jupe, Danielle Rose Russell og Sonia Braga Leikstjórn: Stephen Chbosky Bíó: Laugarásbíó, Háskólabíó, Borgarbíó Akureyri og Sambíóið Keflavík Frumsýnd 24. nóvember Owen Wilson og Julia Roberts leika foreldra Auggies í Wonder, en hann er leikinn af Jacob Tremblay. Systir hans, Via, er leikin af Izabelu Vidovic. Veistu svarið? Jacob Tremblay hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið í fjöl- mörgum myndum, þ. á m. í hinni áhrifaríku verðlauna- mynd Room eftir Lenny Abrahamson, en sú sem lék móður hans í þeirri mynd hlaut Óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki kvenna. Hvað heitir hún? Brie Larson. 32 Myndir mánaðarins