Myndir mánaðarins Nóvember 2017 tbl. 286 Bíó | Page 16

Væntanlegt í desember

Svo vond að hún varð góð

Kvikmyndin The Room sem Tommy Wiseau gerði og lék aðalhlutverkið í árið 2003 varð fljótlega eftir frumsýningu fræg að endemum en hún var svo slæm og svakalega illa leikin að hún fór allan hringinn og er nú talin einhver fyndnasta mynd allra tíma , þótt Tommy hefði síður en svo ætlað að gera gamanmynd .
The Disaster Artist er um gerð þessarar myndar og er leikstýrt af James Franco sem jafnframt leikur Tommy Wiseau og þykir gera það af stakri snilld , en Tommy var og er afar sérstakur maður á allan hátt , bæði í orði og æði , svo ekki sé sterkar til orða tekið .
Myndin hefur nú verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum og er skemmst frá því að segja að hún hefur hlotið mjög góða dóma . Hún fer í almenna dreifingu í desember og verður frumsýnd hér á landi þann 29 .
Fjölmargir kunnir leikarar koma fram í The Disaster Artist , sumir sem þeir sjálfir , og á meðal þeirra eru Seth Rogen , Zoey Deutch , Alison Brie , Kristen Bell , Josh Hutcherson , Zac Efron , Bryan Cranston , Megan Mullally , Kate Upton , Sharon Stone , Melanie Griffith , Zach Braff og fleiri , og að sjálfsögðu aðalmaðurinn , Tommy Wiseau sjálfur , sem í dag hefur gaman af öllu saman .
Margot Robbie leikur titilhlutverkið í I , Tonya , skautadrottninguna Tonyu Harding sem var margfaldur meistari í ísdansi en gekk svo langt ásamt fyrrverandi eiginmanni í græðginni eftir titlum að henni var bannað fyrir lífstíð að keppa aftur í íþróttinni .

Hneykslið sem skók heiminn

Einn helsti skandall ársins 1994 átti sér stað strax í byrjun þess , þann 6 . janúar , þegar ráðist var á bandarísku skautadrottninguna Nancy Kerrigan eftir æfingu hennar á svellinu og hún lamin af afli í annað lærið af einhverjum sem flúði af vettvangi . Augljóst var að högginu var ætlað að fótbrjóta Nancy og fljótlega átti rannsóknin eftir að leiða í ljós að sá sem réðst á hana hét Shane Stant og hafði verið ráðinn til verksins af lífverði og fyrrverandi eiginmanni helsta keppinautar Nancyar , Tonyu Harding . Tonya neitaði í fyrstu öllum ásökunum um að hún hefði vitað eitthvað um árásina en viðurkenndi síðan fyrir rétti í júní sama ár að sér hefði verið kunnugt um hvað til stóð . Þeir sem skipulögðu og frömdu verknaðinn hlutu fangelsisvist en Tonya slapp með skilorð gegn greiðslu hárrar sektar . Hún var hins vegar útilokuð frá skautakeppni fyrir lífstíð .
Þetta mál er viðfangsefni myndarinnar I , Tonya , sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í september þar sem hún fékk toppdóma gagnrýnenda og mikið lof áhorfenda , ekki síst fyrir leik , en Margot Robbie þykir svo góð í aðalhlutverkinu að hún er af öllum sem spá í slíka hluti nánast talin örugg um bæði Golden Globe- og Óskarsverðlaunatilnefningar . Sama gildir reyndar um Allison Janney sem leikur móður Tonyu , LaVonu Golden , því henni er líka alls staðar spáð sömu tilnefningum fyrir besta leik í aukahlutverki kvenna . Margir spá myndinni sjálfri tilnefningu til verðlaunanna sem bestu mynd ársins en leikstjóri hennar er Craig Gillespie sem síðast sendi frá sér myndina The Finest Hour .
I , Tonya verður að öllum líkindum frumsýnd hér á landi í byrjun desember og við segjum aðeins meira frá henni í næsta blaði .
James Franco leikstýrir myndinni og leikur aðalhlutverkið , hinn sérstaka Tommy Wiseau , sem er hér að leika í einu frægasta atriði myndarinnar The Room . Ef þið hafið ekki séð þetta atriði þá hvetjum við ykkur til að fara á YouTube og sjá það , en atriðið er svo fáránlegt í alla staði og illa leikið að það fer allan hringinn og verður að einu fyndnasta atriði kvikmyndasögunnar .
Það er Sebastian Stan sem leikur fyrrverandi eiginmann Tonyu og átti hvað stærstan þátt í árásinni sem gerð var á Nancy Kerrigan .
16 Myndir mánaðarins