Myndir mánaðarins Nóvember 2017 tbl. 286 Bíó | Page 14

Væntanlegt í desember Góða nautið Ferdinand Jólateiknimyndin í ár verður væntanlega ný mynd frá þeim sömu sem gerðu Ísaldar- og Rio-myndirnar. Hún heitir Ferdinand og er byggð á þekktustu sögu bandaríska rithöfundarins Munros Leaf sem gaf hana út árið 1936 með teikningum eftir Robert Lawson. Myndin er um nautið Ferdin- and sem allt frá því að hann er kálfur veit ekkert notalegra en að vera úti í náttúrunni, þefa af blómunum og dást að litunum. Móðir hans hefur í fyrstu áhyggjur af þessari hegðun Ferdinands enda passar hún ekki við hegðun annarra kálfa sem vita ekkert skemmtilegra en að stangast á og láta sig dreyma um að fara til Madridar og berjast í hringnum. Þegar hún áttar sig á því að honum líður vel hættir hún þó smám saman að undra sig á þessu. Þegar fram líða stundir verður Ferdinand stærsta og sterkasta nautið á búgarðinum. Dag einn koma menn frá Madrid að velja naut til að taka þátt í nautaati og svo illa vill til að Ferdinand sest óvart á býflugu sem stingur hann í rassinn. Viðbrögð hans vekja athygli mannanna frá Madrid og svo fer að þeir velja hann til að taka með sér til borgarinnar. Hvað síðan gerist segjum við ekki frá en það má þó upplýsa að Madridarbúar hafa aldrei kynnst nauti eins og Ferdinand fyrr. Myndin verður frumsýnd 26. desember. The Greatest Showman heitir ein myndin til sem frumsýnd verður í kvikmyndahúsum í kringum jólin en hún sækir inn- blásturinn í ævi Bandaríkjamannsins Phineasar Taylor Barnum sem var einstakur maður á margan hátt, stórsnjall í viðskiptum, framkvæmdaglaður með eindæmum, hugsjónamaður, frumkvöðull, heimspek- ingur og gleðigjafi, auk þess sem hann lét til sín taka í stjórnmálum á tímabili þar sem allt starf hans snerist um að bæta samfélagið og líf samborgara sinna, t.d. með vatnsveitum, götulýsingum og auk- inni heilbrigðisþjónustu, en hann lét m.a. byggja sjúkrahúsið í bænum Bridgeport í Connecticut á meðan hann var bæjarstjóri þar og varð fyrsti forstjóri þess sjálfur, en sjúkrahúsið veitti ókeypis læknisþjónustu. Þekktastur varð hann þó fyrir fjölleikahúsið sem hann stofnaði og ferðaðist með, sýningarsalina og söfnin sem hann kom á laggirnar, þar á meðal fyrsta fiskasafn Bandaríkjanna. Auk þess var hann þekktur fyrir sviðsuppsetningar á alls kyns sýningum sem nutu mikilla vinsælda, ekki síst í leikhúsum sem hann lét byggja sjálfur, en sýningar hans löðuðu að sér hátt í hálfa milljón gesta árlega í mörg ár. Barnum skrifaði þess utan nokkrar bækur og var um tíma söluhæsti rithöfundur Bandaríkjanna auk þess sem hann skrifaði m.a. handrit upp úr verkum Shakespeares með það að markmiði að gera leikverk hans aðgengilegri fyrir almenning. Og þótt ótrúlegt sé þá er það sem hér hefur verið upp talið bara hluti af afrekum þessa einstaka manns og framkvæmdunum sem hann stóð fyrir. Barnum lést áttræður að aldri árið 1891 og það lýsir frumkvæði hans vel að skömmu fyrir dauða sinn bað hann ritstjóra blaðsins Evening Sun að skrifa minningargreinina um sig svo hann gæti lesið hana áður en hann kveddi. Barnum var síðan lagður til hinstu hvílu í kirkjugarði sem hann hannaði sjálfur. Styttu af honum má finna í almenningsgarðinum Seaside Park sem er á landareign sem Barnum hafði keypt og síðan gefið bæjarbúum í Bridgeport. Það er Hugh Jackman sem leikur P. T. Barnum í The Greatest Show- man og á meðal helstu meðleikara eru þau Michelle Williams sem leikur eiginkonu hans, Charity, Rebecca Ferguson, sem leikur Jenny Lind, en hana gerði Barnum að einni þekktustu og vinsælustu söngkonu Bandaríkjanna á sínum tíma, Zac Efron og Zendaya. Leikstjóri er Michael Gracey og handritið er skrifað af Óskarsverðlaunahafanum Bill Condon eftir sögu Jennyar Bicks. Hugh Jackman leikur P. T. Barnum sem m.a. kom upp fjölleikahúsi sem naut mikilla vinsælda í New York og víðar um miðja 19. öld. 14 Myndir mánaðarins