Myndir mánaðarins MM Október 2019 Bíóhluti | Page 6

Bíófréttir – Væntanlegt Segja má að „krakkarnir“ í lúser-teyminu haf átt sviðið í upphafi september ásamt trúðinum Pennywise en It: Chapter Two hefur notið mikilla vinsælda í bíó eins og búist hafði verið við. Sjáumst í bíó! Þegar þetta blað kemur út í lok september á enn eftir að frumsýna tvær af þeim myndum sem kynntar voru í septemberblaðinu, Midsommar eftir Ara Aster sem sendi síðast frá sér hina mögnuðu mynd Hereditary og Ad Astra eftir leikstjórann James Gray sem gerði m.a. myndirnar The Lost City of Z, The Immigrant, Two Lovers og Little Odessa. Þetta eru gjörólíkar myndir sem eiga það þó sameiginlegt að hafa fengið afar góða dóma gagnrýnenda, ekki síst fyrir að vera mjög frumlegar, bæði hvað varðar sögurnar sjálfar og frásagnarstílinn. Þá hafa myndirnar Downton Abbey og Rambo: Last Blood tiltölulega nýlega verið frumsýndar og verða þessar fjórar myndir vafalaust í sýningu langt fram eftir október ... eins og reyndar fleiri myndir septembermánaðar eins og It: Chapter Two, íslenska myndin Hvítur, hvítur dagur, Hustlers, Skin og fleiri. Það er því ljóst að úr fjölbreyttu úrvali bíómynda verður að velja í kvikmyndahúsum landsins á næstu dögum og vikum. Daniel Craig leikur hinn eitursnjalla lögreglumann Benoit Blanc í morðgátunni Knives Out. Kíkið á frábæra stiklu myndarinnar. Hver er morðinginn? Ein áhugaverðasta stiklan af öllum þeim sem frumsýndar hafa verið að undanförnu er úr myndinni Knives Out eftir leikstjórann Rian Johnson sem einnig skrifar handritið, en Rian gerði síðast Star Wars-myndina The Last Jedi og þar á undan myndirnar Looper, The Brothers Bloom og Brick. Myndinni er lýst sem nútímaútgáfu af gamaldags morðgátu í anda Agöthu Christie eða „whodunnit“ eins og þannig myndir hafa löngum verið nefndar á ensku. Daniel Craig leikur hér rannsóknarlögreglumanninn Benoit Blanc sem kallaður er til þegar vellauðugur glæpasagnarithöfundur, Harlan Thrombey (Christopher Plummer), finnst látinn á óðalssetri sínu, skömmu eftir að hafa haldið upp á 85 ára afmælið ásamt ættingjum og helsta aðstoðarfólki ... sem er enn til staðar á setrinu þegar lík hans finnst. Í fyrstu lítur út fyrir að Harlan hafi framið sjálfsmorð en Benoit er fljótur að afskrifa þann möguleika og þar með eru öll þau sem eru í húsinu grunuð um morð. Fljótlega leiðir Benoit svo í ljós að allir viðstaddir höfðu ærna ástæðu til að vilja Harlan feigan, ef ekki vegna arfsins þá af persónulegri ástæðum. Knives Out var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto 7. sept- ember og hefur fengið mjög góðar umsagnir þeirra sem sáu hana þar. Þannig skrifaði t.d. gagnrýnandi IndieWire, David Ehrlich, að myndin væri „A crackling, devious, and hugely satisfying old- school whodunnit with a modern twist.“ Við trúum honum alveg. Fyrir utan þá Daniel Craig og Christopher Plummer fer heill her þekktra leikara með aðalhlutverkin í myndinni og má þar nefna Don Johnson, Toni Collette, Önu de Armas, Chris Evans, Jamie Lee Curtis, M. Emmet Walsh, Katherine Langford, Frank Oz o.fl. 6 Myndir mánaðarins