Myndir mánaðarins MM Nóvember 2019 Bíóhluti | Page 25

Bergmál Ísland um jólin Bergmál er einstök mynd eftir Rúnar Rúnarsson sem gerði m.a. myndirnar Eldfjall, Þrestir og Síðasti bærinn en þær hafa hlotið nánast óteljandi verðlaun og var sú síðastnefnda m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna 2006 sem besta stuttmyndin. Hér segir hann okkur 56 smásögur sem saman mynda eina heildstæða mynd af Íslendingum og Íslandi yfir jólahátíðina. Við viljum byrja á því að skora á alla sem áhuga hafa á kvikmyndum að láta Bergmál ekki fram hjá sér fara á stóru tjaldi þar sem hún nýtur sín best. Eins og fram kemur hér í innganginum er um að ræða 56 smásögur úr íslenskum veruleika frá því rétt fyrir jólin og allt þar til síðasta tertan er sprengd aðfaranótt nýársdags. Sögurnar eru eins ólíkar og þær eru margar en mynda samt smám saman heildstæða mynd sem allir Íslendingar kannast vel við úr eigin lífi og annarra. Við skreppum m.a. í heimsókn í skóla þar sem börn eru að syngja jólasöngva, lítum við á safni þar sem kona rífst við eiginmann sinn í síma, skreppum út í sveit þar sem bóndabær brennur, komum við á heimili þar sem ung stúlka er að leyfa ömmu sinni að prófa nýjustu raunveruleika-leikjagræjuna, kíkjum inn á elliheimili til gamla fólks- ins og í sláturhús þar sem kjúklingarnir bíða þess sem verða vill. Og svo framvegis ... mögnuð mynd sem allir Íslendingar ættu að upplifa. Bergmál Drama / Svipmyndir 79 mín Aðalhlutverk: Um 330 manns koma fram í myndinni, langflestir Íslendingar, þannig að mjög líklegt er að íslenskir áhorfendur þekki nokkra af þeim persónulega Leikstjórn: Rúnar Rúnarsson Bíó: Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri Eins og kemur fram í kynningartextanum er Bergmál samansett af 56 smásögum eða „innlitum“ í íslenskan veruleika og gefa þær stillur sem hér eru birtar vísbendingu um hvað gerist í þremur þeirra. Frumsýnd 20. nóvember Punktar .................................................... Bergmál hefur verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum og hlotið afar góða dóma bæði gagnrýnenda og áhorfenda. Hún var t.d. tilnefnd sem besta myndin á kvikmyndahátíðunum í Hamborg, Valladolid, Montreal og Locarno og hlaut dómnefndarverðlaunin á síðastnefndu hátíðinni. Gagnrýnendur hafa einnig farið um hana fögrum orðum og lýsa henni sem upplifun sem lifir í minningunni. l Veistu svarið? Rúnar Rúnarsson hefur sýnt og sannað að hann er á meðal bestu íslensku kvikmyndagerðarmanna sem komið hafa fram enda hafa myndir hans hingað til sópað til sín verðlaunum og viðurkenningum. En hvað heitir fyrsta myndin sem hann gerði árið 2002? Leitin að Rajeev. Myndir mánaðarins 25