Myndir mánaðarins MM Júní 2019 Bíóhluti | Page 6

Bíófréttir – Væntanlegt Keanu Reeves fer eins og flestir áttu von á á kostum í þriðju John Wick-myndinni sem hefur fengið frábærar viðtökur. Gott í bíó Það fór eins og margir voru að vona að þriðja John Wick-myndin, Parabellum sem var fumsýnd 17. maí, gefur þeim tveim fyrri ekkert eftir og hefur hlotið jafnvel enn betri dóma en þær, bæði hjá gagnrýnendum svo og aðdáendum fyrri myndanna. Hún er ein af þeim úrvalsmyndum maímánaðar sem eru í sýningu þegar þetta blað kemur út ásamt myndum eins og Pokémon Detective Pikachu, After og The Hustle auk þess sem nýbúið er að frumsýna myndirnar Aladdin frá Disney og spennutryllinn Brightburn sem hafa báðar fengið fína dóma. Framundan í síðustu viku maímánaðar eru svo frumsýningar á þremur gjörólíkum myndum, þ.e. myndinni Rocketman þar sem tónlistarferli Eltons John eru gerð skil, stórmyndinni Godzilla: King of the Monsters sem er óbeint framhald af hinni þrælgóðu mynd Godzilla frá árinu 2014 og svo „coming of age“-myndinni Booksmart sem margir telja þá bestu í þeim flokki síðan Superbad. Sjáumst í bíó! Anna Nýjasta myndin frá Luc Besson, þ.e. sem hann bæði skrifar handritið að og leikstýrir auk þess að framleiða, heitir Anna í höfuðið á aðalpersón- unni og er væntanleg í bíó seinni partinn í júlí ef áætlanir ganga eftir. Hugurinn hvarflar óneitanlega að næstsíðustu mynd Bessons sem leikstjóra, Lucy, sem var frumsýnd 2014, sló í gegn eins og flestir muna og fækkaði svo sannarlega ekki í aðdáendahópi aðalleikkonunnar Scarlett Johansson sem var frá- bær í titilhlutverkinu. Í þetta sinn er það hin 27 ára gamla rússneska Sasha Luss sem leikur titilhlutverkið, en Sasha hefur allt frá árinu 2008 verið ein eftirsóttasta fyrirsæta heims og starfað fyrir nánast öll þekktustu tískumerkin. Hún kom fram í sínu fyrsta hlutverki í síðustu mynd Bessons, Valerian and the City of a Thousand Planets, en leikur nú persónu sem eftir stiklu myndarinnar að dæma hlýtur að vera skyld John Wick – eða hefur a.m.k. lært að berjast í sama skóla og hann. Kíkið endilega á þessa stiklu sem er þrælskemmtileg fyrir þá sem kunna að meta bardagalistir og hasaratriði. Terminator: Dark Fate – Fyrsta stiklan Við minntumst í síðasta blaði á nýju Terminator-myndina Dark Fate sem frumsýna á í haust og vöktum athygli á að hún gerist í framhaldi af Judgement Day þannig að algjörlega er strokað yfir allt sem gerðist í myndunum þremur sem komu þar á eftir, þ.e. Rise of the Machines, Salvation og Genisys. Síðan hefur það gerst að fyrsta stiklan úr myndinni var frumsýnd í maí og er hún áhugaverð í meira lagi þótt hún gefi í sjálfu sér nánast ekkert upp um söguna í myndinni og búi til fleiri spurningar en hún svarar. Við sjáum að vísu flestar aðalpersónurnar (höldum við), þ. á m. Söruh Connor og svo Arnold Schwarzenegger, en fáum ekkert að vita um hvað á daga þeirra hefur drifið síðastliðin 28 ár. Athygli hefur vakið að tónlistin í stiklunni er ný og mögnuð útgáfa af laginu Hunter eftir Björk. 6 Myndir mánaðarins