Myndir mánaðarins MM Janúar 2020 Bíóhluti | Page 13

Nú árið er liðið Tekjuhæst á árinu Eins og allir vita geta vinsælustu leikararnir á hverjum tíma þénað dágóðar upphæðir sem eflaust myndu nægja fleirum en þeim fyrir salti í grautinn. Fjölmiðla- og fjármálafyrirtækið Forbes hefur um árabil reiknað út tekjur stjarnanna og eru eftirfarandi upplýsingar frá því fyrirtæki komnar. Þess ber að geta að þetta eru í öllum til- fellum brúttótölur, þ.e. laun fyrir skatta, gjöld og kostnað, og að tekjutímabilið hjá Forbes hvað þetta varðar er frá júní til júní. Rétt eins og síðast er það besti vinur litla mannsins, Dwayne „The Rock“ Johnson, sem státar af mestu tekjunum en hann þénaði 89,4 milljónir dollara á árinu, eða sem nemur rúmlega ellefu milljörðum íslenskra króna. Er það nokkur lækkun frá síðasta ári þegar Dwayne þénaði 124 milljónir dollara, en það voru líka hæstu tekjur sem nokkur leikari hafði nokkurn tíma þénað á einu ári fyrir leik. Í öðru sæti er Chris Hemsworth sem þénaði 76,4 milljónir dollara og hækkaði þar með tekjur sínar á milli ára um 12 milljónir dollara, Í þriðja sæti er Robert Downey, Jr. með 66 milljónir dollara en hann var í öðru sæti í fyrra með 81 milljón. Fjórða og fimmta sætið verma svo indverski leikarinn Akshay Kumar með 65 milljónir og Hong Kong-meistarinn Jackie Chan með 58 milljónir. Bradley Cooper kemur glænýr inn á listann frá því í fyrra með 57 millur eins og gulldrengurinn Adam Sandler sem einnig þénaði 57 milljónir dollara og hækkaði því um 20 milljónir dollara á milli ára. Í áttunda sæti er fyrsta leikkonan á listanum og þar með tekjuhæsta leikkona heims á síðasta ári, Scarlett Johansson, með 56 milljónir dollara í tekjur og þar á eftir, eða í níunda sæti listans, er önnur leikkona, Sofia Vergara, sem þénaði 44,1 milljónir dollara. Karlarnir taka svo aftur við í sætum 10 til 11 og eru það þeir Chris Evans með 43,5 milljónir og Paul Rudd með 41 milljón sem verma þau sæti. Þau Will Smith og Reese Witherspoon eru svo hnífjöfn í sætum 12–13 með 35 milljónir dollara hvort í tekjur. Þar með höfum við talið upp tíu tekjuhæstu karlleikarana en af því að konurnar á topp 13 eru bara þrjár nefnum við til viðbótar þær sjö sem náðu einnig inn á topp 10-listann yfir tekjuhæstu leikkonurnar. Þær eru Nicole Kidman með 34 milljónir dollara, Jennifer Aniston með 28 milljónir, Kaley Cuoco með 25, Elisabeth Moss með 24, Margot Robbie með 23,5, Charlize Theron með 23 og að lokum Ellen Pompeo í tíunda sæti með 22 milljónir dollara í tekjur. Nýstirni ársins – Kona Það koma auðvitað margar leikkonur til greina sem nýstirni ársins en þar sem við megum bara velja eina þá völdum við ensku leik- konuna Florence Pugh af þeirri einföldu ástæðu að við teljum að hún verði stórstjarna á næstu tveimur til þremur árum. Florence, sem er fædd 3. janúar 1996 í Oxford, vakti mikla athygli í sinni fyrstu mynd, The Falling árið 2015, og sló svo í gegn hjá öllum sem sáu hana í aðalhlutverki myndarinnar Lady Macbeth 2016. Hún lék svo í myndunum The Commuter, Outlaw King, Malevolent og Midsommar áður en hún vakti alþjóðlega athygli í aðalhlutverki myndarinnar Fighting with My Family. Með frammistöðu sinni í hlutverki Amy March í Little Women er hún nú á góðri leið með að vinna hug og hjörtu bandarískra áhorfenda og það er engin tilviljun að hún var valin úr hópi þúsunda ungra leikkvenna til að fara með hlutverk ofurnjósnarans Yelenu Belovu í væntanlegu stórmyndinni Black Widow, en Yelena er bæði samstarfs- og besta vinkona Natöshu Romanovu sem Marvel-aðdáendur þekkja mun betur sem svörtu ekkjuna og Scarlett Johansson hefur leikið á undanförnum árum. Og til að vera með allt á hreinu þá er eftirnafn Florence Pugh borið fram eins og Íslendingur myndi bera fram orðleysuna „pjúf“. Nýstirni ársins - Karl Við sláum tvær flugur í einu höggi þegar við útnefnum hinn tólf ára Roman Griffin Davis sem nýstirni ársins því hann er þá um leið barnastjarna ársins. Roman, sem verður þrettán ára 5. mars en var ellefu ára þegar hann fór með aðalhlutverkið í myndinni Jojo Rabbit, er leikari af guðs náð og á ekki langt að sækja áhugann því móðir hans, Camille Griffin, er handritahöfundur og leikstjóri og faðir hans, Ben Davis, er einn virtasti kvikmyndatökumaður Breta. Og við hér á Myndum mánaðarins erum sannarlega ekki þau einu sem valið hafa Roman sem nýstirni ársins því það hafa mörg gagnrýnendasamtök líka gert og segir það sína sögu að hann sé á meðal þeirra sem nú eru tilnefndir til Golden Globe-verðlauna fyrir besta leik ársins. Myndir mánaðarins 13