Myndir mánaðarins MM Desember 2018 Bíóhluti | Page 16

Væntanlegt í janúar Þann 18. janúar verða þrjár myndir frumsýndar, þar á meðal nýjasta mynd M. Nights Shyamalan, Glass, en eftir henni bíða sjálfsagt margir, svo umtöluð sem hún hefur verið allt frá því að hafist var handa við gerð hennar. Í Glass koma saman þrír karakterar úr fyrri myndum Shyamalans, þ.e. þeir David Dunn og Elijah Price (herra Glass) úr myndinni Unbreakable frá árinu 2000 og svo Kevin Wendell Crumb úr myndinni Split en hann er í raun 24 persónur í einum og sama líkamanum. Með hlutverk þessara þriggja karaktera fara sem fyrr þeir Bruce Willis, Samuel L. Jackson og James McAvoy sem í upphafi myndarinnar virðast allir samankomnir á einhvers konar meðferðarstofnun þar sem gera á tilraunir til að „lækna“ þá af þeim hugmyndum að þeir séu eitthvað örðuvísi en aðrir og búi jafnvel yfir einhvers konar ofurkröftum. Annars er best að vera ekkert að spá í söguna á þessu stigi þar sem upplýsingar um hana eru afar takmakaðar að öðru leyti en því sem sést í magnaðri stiklunni. Hún er þó langt frá því að upplýsa um raunverulegan söguþráð þótt vissulega virðist hún sýna nokkur af lykilatriðum myndarinnar. Með önnur stór hlutverk í Glass fara m.a. Anya Taylor-Joy, Sarah Paulson, Luke Kirby og Spencer T. Clark. Önnur mynd sem einnig verður frumsýnd 18. janúar er Ben is Back eftir leikstjórann og hand- ritshöfundinn Peter Hedges sem á m.a. að baki myndirnar Pieces of April, Dan in Real Life og The Odd Life of Timothy Green auk þess sem hann skrifaði handritin að myndunum About a Boy og What’s Eating Gilbert Grape sem var jafnframt byggð á skáldsögu hans. Ben is Back segir frá ungum manni, Ben Burns, sem var bæði djúpt sokkinn og hætt kominn vegna eiturlyfjafíknar og glæpa sem hann framdi vegna þeirra áður en honum tókst að rétta sig af á meðferðarstofnun. Þegar myndin hefst er hann að koma heim á ný þar sem m.a. móðir hans tekur á móti honum og þótt hún sé fegin að það sé í lagi með son sinn er hún jafnframt dauðhrædd um að hann falli á ný. Á þann ótta slær ekki þegar hún kemst að því að einn af fyrrverandi dópfélögum Bens telur hann skulda sér peninga sem hann verði að greiða, sama hvað. Myndin þykir gríðarlega áhrifarík, raunsæ og góð í alla staði og þá sérstaklega leikur þeirra Juliu Roberts og Lucasar Hedges í aðalhlutverkunum. Þykja þau bæði líkleg til að verða tilnefnd til einhverra ef ekki allra stóru verðlaunanna fyrir vikið á næsta ári. Þess má geta að Lucas, sem lék m.a. í myndunum Manchester by the Sea, Lady Bird, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri og Boy Erased, er sonur leikstjóra myndarinnar og þykir allt eins líklegur til að hljóta tilnefningar til margra verðlauna fyrir leik sinn í síðastnefndu myndinni, þ.e. Boy Erased, sem er væntanleg í bíó í mars næstkomandi. Um hana fjöllum við betur þegar að því kemur. Þriðja myndin sem frumsýna á 18. janúar er svo teiknimyndin Ótrúleg saga um risastóra peru sem er gerð eftir samnefndri barnabók danska rithöfundarins og teiknarans Jakobs Martin Strid en hún kom út árið 2012 á íslensku í snilldarþýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Varð hún um leið önnur bókin eftir Jakob sem gefin hefur verið út á Íslandi en sú fyrri var Í búðinni hans Mústafa í þýðingu Friðriks H. Ólafssonar. Ótrúleg saga um risastóra peru er í raun ótrúleg saga og svo viðburðarík að það hálfa væri nóg. Í stuttu máli segir hún frá vinunum Sebastian sem er fíll og kisustelpunni Mithco sem dag einn veiða flöskuskeyti í höfninni frá týndum bæjarstjóra bæjarins sem þau búa í. Fyrir gráglettni örlaga og tilviljana fer svo að þau leggja ásamt prófessor Glúkos upp í langferð yfir úthafið á risastórri peru sem er útbúin eins og bátur. Á leiðinni lenda þau í vondum veðrum, hitta sjóræningja, drauga, drekaskip og margt fleira áður en þau finna loksins eyjuna þar sem bæjarstjórinn er. Myndin þykir bráðskemmtileg fyrir krakka en þeir fullorðnu munu líka hafa gaman af henni því í henni er að finna stórskemmtilega ádeilu sem aðeins þeir munu skilja, án þess að það skemmi fyrir þeim sem yngri eru. 16 Myndir mánaðarins The Mule nefnist nýjasta mynd Clints Eastwood og verður hún ásamt tveimur öðrum myndum frumsýnd 25. janúar. Myndin, sem Clint leikur jafnframt aðalhlutverkið í, segir frá níræðum manni, Earl Stone, sem fellur í þá freistni að flytja þrjú kíló af kókaíni frá Mexíkó til Bandaríkjanna fyrir mexíkóskan eiturlyfjahring. Sagan er byggð á sönnum atburðum og sækir efniviðinn í grein Sams Dolnick sem heitir The Sinaloa Cartel’s 90- Year Old Drug Mule og birtist í The New York Times fyrir nokkrum árum. Handritið er hins vegar eftir Nick Schenk sem skrifaði einnig hina góðu mynd The Judge og myndina Gran Torino sem Clint leikstýrði einmitt 2008 með sjálfum sér í aðalhlutverki. Þá héldu margir að Clint hefði leikið í sinni síðustu mynd, enda þótti hann gefa það sterklega í skyn með endi þeirrar myndar þar sem karakter hans dó eftir að hafa fórnað sér fyrir málstaðinn. Með helsta hlutverk á móti honum í The Mule fer Bradley Cooper og er þetta í annað sinn sem þeir tveir vinna saman því eins og menn muna lék Bradley aðalhlutverkið í mynd Clints, American Sniper, sem var frumsýnd fyrir fjórum árum og gerði það víða mjög gott. Með önnur stór hlutverk fara svo Taissa Farmiga, Michael Peña, Andy Garcia, Laurence Fishburne, Dianne Wiest og dóttir Clints, Alison Eastwood. Mary Queen of Scots eftir Josie Rourke verður einnig frumsýnd 25. janúar ef áætlanir ganga eftir en í henni leika þær Saoirse Ronan og Margot Robbie Mary Stúart Skotadrottningu annars veg- ar og hins vegar Elísabetu 1. Englandsdrottningu. Myndin er byggð á bók Johns Guy og segir frá því þegar Mary Stúart, sem var réttborin drottning Skota, sneri til Skotlands á ný eftir að hafa alist upp í Frakklandi frá unga aldri. Margir, þar á meðal hún sjálf, töldu hana einnig eiga tilkall til ensku krúnunnar, en því var Elísabet að sjálfsögðu ekki sammála. Eftir að Mary hafði lent í vandræðum heima fyrir sem tengdust hjónabandi hennar og James Hepburn leitaði hún á náðir Elísabetar árið 1567. Þær stöllur voru í raun ekki óvinir en þar sem Mary hafði gert tilkall til ensku krúnunnar og naut stuðnings uppreisnarhóps sem studdi þá kröfu þá þorði Elísabet ekki að styðja hana og í gang fór mikil barátta sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér til margra ára. Mary Queen of Scots er ein af þeim myndum sem er spáð góðu gengi á verðlaunahátíðum næsta árs og hafa fyrstu viðtökur verið afar góðar, en myndin hefur verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum þótt hún fari ekki í almenna dreifingu fyrr en í janúar. Enn ein myndin sem þykir líklega til afreka á komandi verðlaunahátíðum er Stan & Ollie eftir leikstjórann Jon S. Baird (Filth) en hún verður eins og myndirnar tvær hér fyrir ofan frumsýnd 25. janúar. Fyrst og fremst þykja þeir John C. Reilly og Steve Coogan líklegir til að hljóta verðlaun fyrir túlkun sína á gríntvíeykinu Oliver Hardy og Stan Laurel sem hér á landi voru á sínum tíma alltaf kallaðir Steini og Olli, eða Gøg og Gokke sem var danska heitið. Þykja þeir John og Steve ná að túlka félagana tvo á nánast fullkominn hátt, bæði í atriðum þar sem þeir eru að skemmta svo og utan sviðs. Handritið þykir og frábært en það er skrifað af Jeff Pope sem hlaut fjölda verðlauna fyrir síðasta bíómyndahandrit sitt, Philomena, þ. á m. BAFTA-verðlaunin og tilnefningu til Óskarsverðlauna. Myndin gerist undir lok ferils þeirra Stans og Laurels á sjötta áratug síðustu aldar þegar þeir koma til heimalandsins Bretlands eftir áralanga vist í Hollywood þar sem þeir gerðu fjölmargar myndir. Þeir ákveða að fara í sýningarferðalag um Bretlandseyjar, en það gengur upp og niður, ekki síst vegna þess að á milli þeirra ríkti ákveðinn ágreiningur vegna gamals atburðar sem aldrei hafði verið gerður upp auk þess sem Laurel var farinn að tapa heilsu þegar þarna var komið sögu. Samt sem áður voru þessir menn eins miklir perluvinir og hægt er að vera og þykir myndin lýsa sambandi þeirra afar vel auk þess sem þær Shirley Henderson og Nina Arianda þykja alveg frábærar í hlutverkum eiginkvenna þeirra, Lucille og Idu.