Myndir mánaðarins MM Desember 2018 Bíóhluti | Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt 12 Kubbamyndin The Lego Movie sló í gegn þegar hún var frumsýnd í febrúar 2014 og gerði stjörnu úr kubbakallinum Emmet Brickowski sem varð óvart og óvænt aðalkubbakallinn í baráttu við grimman og ægilegan einræðisherra sem ætlaði sér að rústa veröld hans og annarra kubbakalla. Sem betur fer naut Emmet aðstoðar Batmans og fleiri og hlaut baráttan farsælan endi eins og allir vita sem sáu þá skemmtilegu mynd. Í febrúar verður svo framhaldsmyndin The Lego Movie 2: The Second Part frumsýnd en hún gerist nokkrum árum eftir að allt varð frábært aftur í fyrri myndinni og segir frá því þegar Lego Duplo-kubbar utan úr geimnum gera árás á kubbaveröld Emmets og félaga og rústa henni. Það sem er verra er að þeir ræna Lucy, bestu vinkonu Emmets, sem þýðir að hann verður að smíða sér geimskip og fara út í geim að bjarga henni. Allar helstu persónur fyrri myndarinnar snúa hér aftur ásamt leik- urunum sem töluðu fyrir þær auk nýrra persóna, en um leikstjórnina í þetta sinn sá Mike Mitchell sem gerði síðast teiknimyndina Tröll. Disneymyndin The Lion King varð vinsæl- asta mynd ársins 1994 og er enn þriðja tekjuhæsta mynd Disney frá upphafi (á eftir Frozen og Zootropolis) og situr í dag í 29. sæti listans yfir tekjuhæstu myndir allra tíma. Í júlí á næsta ári mun Disney frumsýna þessa frábæru mynd á ný sem nú hefur verið endurgerð frá grunni með nýjustu tölvu- og kvikmyndatækni sem við þekkjum úr myndum eins og endurgerðinni af Jungle Book frá árinu 2016. Fyrsta kynningarstiklan úr mynd- inni var frumsýnd í nóvember og lofar góðu eins og búast mátti við og verður gaman að sjá hvort myndin eigi eftir að gera enn betur en sú fyrri í kvikmyndahúsum heimsins en við því má alveg búast. Á meðal leikara sem tala fyrir helstu persónurnar í þetta sinn í ensku útgáfunni eru Donald Glover, Beyoncé, Seth Rogen, Billy Eichner, Keegan-Michael Key, Chiwetel Ejiofor, John Oliver, Alfre Woodard og James Earl Jones. Í ágúst á næsta ári verður myndin Playmobil: The Movie frumsýnd en hún er eins og flestir ættu nú þegar að hafa giskað á byggð í kringum Playmobil-persónurnar sem allir þekkja enda hafa þessi leikföng notið vinsælda um árabil eða allt frá því framleiðsla á þeim hófst árið 1974. Þessi fyrsta mynd um ævintýri þessara persóna er í leikstjórn Linos DiSalvo sem á langan feril að baki í gerð handunninna og teiknaðra mynda og var t.d. aðalteiknari Disney-myndarinnar vinsælu, Frozen. Engin stikla hefur enn verið frumsýnd þegar þetta er skrifað en að því er okkur hér á Myndum mánaðarins skilst segir sagan frá hinni mannlegu Mörlu sem heldur af stað í leit að yngri bróður sínum Charlie, en honum hefur á einhvern hátt tekist að hverfa inn í veröld Playmobil þar sem hvert ævintýrið rekur annað. Þar mun Marla fá aðstoð frá nokkrum Playmobil-persónum við að hafa uppi á bróður sínum, þ. á m. spæjaranum Rex Dasher sem Daniel Radcliffe talar fyrir. Við kynnum þessa mynd að sjálfsögðu betur í næstu blöðum þegar nánari upplýsingar liggja fyrir og fyrsta stiklan hefur verið frumsýnd. Fyrir utan þær myndir sem nefndar hafa verið hér á síðunni eiga kvik- myndahúsagestir von á fjölmörgum áhugaverðum teikni- og hand- gerðum myndum á næsta ári, t.d. leirbrúðumyndinni The Missing Link sem myndin hér að ofan er einmitt úr. Hún er eftir Chris Butler sem gerði m.a. myndina ParaNorman og fjallar um leit Lionels Frost lávarðar og aðstoðarkonu hans, Adelinu Fortnight, að hinum týnda hlekk í þróun mannkyns og finna hann í hinum sérstaka herra Link sem haldið hefur til í Shangri-La þar sem tíminn líður ekki. Þessa mynd á að frumsýna í apríl en á meðal annarra teikni- og handgerðra mynda sem frumsýndar verða á árinu 2019 má nefna mynd númer tvö um litlu gulu skósveinana (Minions), Secret Life of Pets 2, Toy Story 4, The Angry Birds Movie 2, Frozen 2, How to Train Your Dragon: The Hidden World, Hello Kitty, Ugly Dolls og Wonder Park, að ógleymdri myndinni Ótrúleg saga um risastóra peru sem er byggð á samnefndri barnabók danska rithöfundarins Jakobs Martin Strid, en sú mynd verður frumsýnd í janúar og er kynnt nánar hér á bls. 16. Þessi upptalning inniheldur auðvitað bara hluta af teikni- og handgerðum myndum næsta árs en um þær allar munum við að sjálfsögðu fjalla betur í komandi blöðum. Myndir mánaðarins