Myndir mánaðarins MM Desember 2018 Bíóhluti | 页面 10

Bíófréttir – Væntanlegt 10 Fólk sem kann að meta vísindaskáldsögur ætti að kíkja á stikluna úr myndinni Captive State sem er tiltölulega nýkomin á netið en hún er eftir Rupert Wyatt sem gerði m.a. myndirnar The Escapist, Rise of the Planet of the Apes og The Gambler. Rupert skrifar sjálfur handritið ásamt eiginkonu sinni Ericu Beeney og gerist sagan í tiltölulega náinni framtíð þegar tíu ár eru liðin frá því að geimverur komu til Jarðar og tóku yfir alla stjórn á henni úr höndum manna. Margir þeirra sáu sér reyndar þann kost vænstan að ganga í lið með þessum geimverum og starfa undir þeirra stjórn en um leið urðu til uppreisnarhópar sem eru staðráðnir í að koma geimverunum frá völdum, en það er hægara sagt en gert. Myndin, sem gerist öll í Chicago framtíðarinnar og er sögð afar framúrstefnuleg sýn á framtíð mannkynsins, skartar þeim John Goodman, Ashton Sanders, Veru Farmigu, D.B. Sweeney, Madeline Brewer, Kevin Dunn, Ben Daniels og Machine Gun Kelly (MGK) í stærstu hlutverkunum og verður frumsýnd í lok mars eða byrjun apríl ef áætlanir ganga eftir. Eins og kunnugt er mun Brad Pitt leika eitt aðalhlutverkið í næstu mynd Quentins Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood, sem frumsýnd verður 9. ágúst og er hann einnig með á dagskránni aðal- hlutverkið í ónefndri næstu mynd Wes Anderson svo og hlutverk Gerrys Lane í framhaldsmyndinni World War Z 2 sem vonir standa til að verði frumsýnd sumarið 2020. En áður munum við hins vegar sjá hann í nýjustu mynd leikstjórans James Gray, Ad Astra, sem frumsýna á 24. maí næstkomandi þar sem aðalmótleikarar hans eru Tommy Lee Jones, Donald Sutherland, Ruth Negga og Jamie Kennedy. Myndin gerist að stórum hluta úti í geimnum og fjallar um geimfarann Roy McBride sem leggur upp í sannkallaða langferð í leit að vísbendingum um afdrif föður síns sem tuttugu árum fyrr hafði verið sendur til Neptúnusar í leit að vitsmunalífi. Myndin lofar mjög góðu, a.m.k. fyrir aðdáendur vísindaskáldsagna, en leikstjórinn James Gray, sem einnig skrifar hand- ritið ásamt Ethan Gross, á m.a. að baki myndirnar Little Odessa, The Immigrant og núna síðast hina þrælgóðu mynd, The Lost City of Z. Serenity nefnist ein af þeim áhugaverðu mynd- um sem frumsýna á í febrúar en hún er eftir leikstjórann Steven Knight sem bæði skrifaði og leikstýrði myndunum Redemption og Locke en á einnig að baki handrit fjölmargra annarra þekktra mynda eins og Dirty Pretty Things, Amazing Grace, Pawn Sacrifice, Burnt, Allied og The Girl in the Spider’s Web. Myndin segir frá Baker Dill sem býr á suðrænni eyju þar sem hann leigir út bát til sjóstangaveiðimanna. Dag einn fer veröldin á hvolf hjá honum þegar fyrrverandi eiginkona hans og barnsmóðir kemur til hans og biður hann að myrða núverandi eiginmann sinn gegn tíu milljón dollara greiðslu. Í gang fer vægast sagt óvenjuleg atburðarás sem á eftir að koma áhorfendum hressilega á óvart enda er ekki allt sem sýnist. Með aðalhlutverkin fer hópur þekktra leikara, þau Matthew McConaughey sem leikur Baker, Anne Hathaway sem leikur fyrrverandi eiginkonu hans og Jason Clarke sem leikur manninn sem Baker á að myrða. Auk þeirra fara Diane Lane, Djimon Hounsou og Jeremy Strong með stór hlutverk í myndinni. Kíkið endilega á stiklu þessarar myndar sem frumsýnd hefur verið á netinu. Hér sjáum við þá Tom Bateman og Liam Neeson í hlutverkum sínum í myndinni Cold Pursuit í leikstjórn hins norska Hans Petter Moland en hún er endurgerð hans eigin myndar, Kraftidi- oten, sem var frumsýnd árið 2014 og vakti mikla lukku, enda þrælgóð mynd í alla staði. Liam fetar hér í fótspor Stellans Skarsgård í þeirri mynd og leikur Nels sem vinnur við að hreinsa snjó af vegum í Klettafjöllum með öflugustu snjóruðningstækjum sem völ er á. Þegar sonur hans er myrtur sannfærist Nels um að eiturlyfjakóngur einn á svæðinu beri ábyrgð á dauða hans og sver þess dýran eið að koma fram hefndum, ekki bara gagnvart honum heldur öllu hans gengi. Til þess notar hann m.a. hinn aflmikla snjóruðningsdreka sem hann ræður yfir. Málið á hins vegar eftir að reynast flóknara en Nels gerði ráð fyrir (þótt það væri nú þegar frekar flókið) enda blandast inn í það mun erfiðari og hættulegri andstæðingar en þeir sem hann hélt að hann ætti í höggi við. Myndin verður frumsýnd í febrúar og fyrir utan þá Liam og Tom fara Laura Dern, Emmy Rossum, William Forsythe, Domenick Lombardozzi, Julia Jones og Raoul Max Trujillo með stærstu hlutverkin. Myndir mánaðarins