Myndir mánaðarins MM Apríl 2019 Bíóhluti | Page 10

Bíófréttir – Væntanlegt 10 Svindl á svindl ofan Dóra landkönnuður – fyrsta stiklan The Hustle nefnist ný mynd eftir leikstjórann Chris Addison eftir handriti Jac Schaeffer, en það er byggt á handriti myndarinnar Dirty Rotten Scoundrels sem sló í gegn árið 1988 með Michael Caine, Steve Martin og Glenne Headly í aðalhlutverkum, en handrit hennar var aftur byggt á handriti myndarinnar Bedtime Story frá árinu 1964 þar sem Marlon Brando, David Niven og Shirley Jones léku aðalhlutverkin. Í þetta sinn eru það hins vegar þær Anne Hathaway og Rebel Wilson sem bregða sér í hlutverk svindlara sem taka höndum saman um að svindla milljónir út úr grunlausum milljónamæringum með alls konar falsi. Rebel er týpan sem Steve Martin lék í Dirty Rotten Scoundrels en Anne leikur þá sem Michael Caine lék þar. Sagan er að sjálfsögðu ekki alveg sú sama þótt grunnurinn sé það og hver veit nema hérna sé kominn einn af grínsmellum ársins. Við komumst að því þann 10. maí þegar myndin verður frumsýnd, en óhætt er að segja að bráðfjörug stiklan lofi góðu enda rekur þar hver brandarinn annan. Fyrsta stiklan úr Nickelodeon-myndinni Dora and the Lost City of Gold var frum- sýnd á dögunum en myndin sækir efnið í teiknimyndaþættina um Dóru landkönnuð sem notið hafa mikilla vinsælda víða um lönd um árabil, þ. á m. á Íslandi. Það er Isabela Moner sem leikur Dóru og sést hún hér á myndinni fyrir ofan ásamt foreldrum sínum sem þau Eva Longoria og Michael Peña leika. Myndin, sem leikstýrt er af James Bobin (Muppets Most Wanted, Alice Through the Looking Glass), segir frá því þegar foreldrum Dóru er rænt sem þýðir auðvitað að Dóra verður að fara í málið og bjarga þeim áður en það er um seinan. Myndin verður frumsýnd í ágúst og í öðrum stórum hlutverkum eru m.a. Temuera Morrison, Eugenio Derbez og Jeffrey Wahlberg sem lekur Díegó, besta vin Dóru. Sjáið stikluna. Ungar í anda Maíhrollurinn! Ein af uppáhaldsmyndum margra frá árinu 2018 er hin launfyndna og stórskemmtilega Book Club þar sem leikkonurnar Diane Keaton, Jane Fonda, Candice Bergen og Mary Steenburgen fóru á kostum í hlutverki fjögurra kvenna sem ákváðu að taka ástamálin í gegn með mönnum sem þeir Andy Garcia, Craig T. Nelson, Don Johnson og Richard Dreyfuss léku. Fólk sem kunni vel að meta þann húmor ætti að veita myndinni Poms athygli en hún er gerð af sama fólki og gerði Book Club og verður frumsýnd í maí. Diane Keaton er aftur í einu aðalhlutverkanna og leikur hér hana Mörthu sem er frekar vonsvikin með lífið og tilveruna eins og hún er orðin. Hún skráir sig inn á nokkurs konar hressingarmiðstöð sem konur á hennar aldri sækja sér til heilsubótar og þar kviknar sú hugmynd að stofna hvatningarsveit (cheer leading squad) og taka þátt í keppni þeirra bestu. Með önnur stór hlutverk fara m.a. gamalkunnar leikkonur eins og Pam Grier, Rhea Perlman, Jacki Weaver og Celia Weston. Við höfum áður fjallað lítillega um myndina Brightburn en minnum nú á hana aftur því hún verður ein af aðalmyndum kvikmyndahúsanna í maí og þar með í næsta blaði. Brightburn er í leikstjórn Davids Yarovesky en hún er framleidd af James Gunn, þeim sem gerði Guardians of the Galaxy-myndirnar, og er handritið eftir bróðir hans, Brian Gunn, og frænda þeirra, Mark Gunn. Vaxandi orðrómur er um að þessi mynd eigi eftir að koma verulega á óvart en hún er sögð einkar frumleg blanda af vísindaskáldsögu, ofurhetjumynd og hrollvekju og segir frá pilti einum sem hreinlega fellur til jarðar utan úr geimnum og reynist að sjálfsögðu mun hættulegri en hann sýnist í fyrstu. Stiklurnar úr Brightburn eru vægast sagt magnaðar og hafa gefið áðurnefndum orðróm byr undir báða vængi. Kíkið á þær. Myndir mánaðarins