Myndir mánaðarins Mars 2018 tbl. 290 Bíóhluti | Page 10

Myndasyrpa – Bíófréttir
Hin ótrúlegu snúa aftur
Teiknimyndin Hin ótrúlegu , eða The Incredibles sem Pixar sendi frá sér árið 2004 er að mati margra teiknimyndaunnenda ein af þremur bestu Pixarmyndunum og tvímælalaust ein sú fyndnasta . Í júní næstkomandi er komið að frumsýningu framhaldsmyndar um hina fjölhæfu Parr-fjölskyldu og var fyrsta 90- sekúndna stiklan úr henni frumsýnd núna í febrúar . Óhætt er að kalla hana frábæra og viljum við hvetja alla teiknimyndaaðdáendur til að kíkja á hana . Þess má geta að sagan í myndinni er þráðbeint framhald af sögu fyrri myndarinnar , svo þráðbeint reyndar að hún hefst nánast þar sem sú fyrri endaði .
Nýja myndin tilbúin
Þetta eru leikstjórinn Jason Reitman , leikkonan Charlize Theron og handritshöfundurinn Diablo Cody sem hér taka á móti einum af fjölmörgum verðlaunum sem mynd þeirra Young Adult hlaut árið 2012 , en hún sagði frá konu einni , Mavis Gary , sem sneri aftur á æskuslóðirnar eftir margra ára fjarveru og rótaði hressilega upp í gömlum glæðum . Nú hafa þau þremenningar gert nýja mynd saman sem fer í almenna dreifingu í apríl og nefnist Tully . Hún segir frá Marlo sem er nýorðin móðir í þriðja sinn og er alveg úrvinda af þreytu og svefnleysi því fyrir utan stanslausan grát nýfædda barnsins allar nætur eru hin tvö börnin , fimm og átta ára , þurftarfrek með afbrigðum . Eiginmaðurinn er til lítils gagns en þegar bróðir Marlo sér hvernig staðan er hjá systur sinni ákveður hann að ráða unga konu , Tully , til að hjálpa henni að komast yfir það versta . Í fyrstu er Marlo skeptísk í garð Tullyar en það á eftir að breytast þegar Tully byrjar að taka til hendinni og sýna úr hverju hún er gerð .
Myndin var frumsýnd á Sundance-hátíðinni , hefur fengið mjög góða dóma og eru allir sem skrifað hafa um hana sammála um að Charlize Theron vinni hér enn einn leiksigurinn í hlutverki hinnar örþreyttu Marlo sem gjörbreytist við komu Tullyar .
Ekkert lamb að leika sér við
Það bíða margir spenntir eftir Deadpool-framhaldsmyndinni sem þrátt fyrir að verða frumsýnd í maí er ekki enn komin með sértitil og nefnist því bara Deadpool 2 . Þeir sem standa að myndinni hafa gætt þess að sem minnst spyrjist út um söguna og hafa stiklurnar úr henni ekki bætt þar um skák enda meira í ætt við sjálfstæða brandara en stiklur . Ýmislegt er þó vitað , m . a . að Josh Brolin leikur einn af vondu köllunum sem Wade Wilson / Deadpool þarf að glíma við , hinn volduga Nathan Summers eða Cable eins og hann er kallaður . Cable þessi er áberandi í nýjustu stiklunni og það er nokkuð ljóst að forráðamenn Marvel eru hrifnir af Josh Brolin í hlutverki þess vonda því hann var einnig fenginn til að leika hinn ægilega Thanos í nýjustu Avengers-myndinni . Hér er hann í fullum skrúða sem Cable .
Minnislausi milljónamæringurinn
Ein af þeim myndum sem væntanlegar eru í bíó í apríl er gamanmyndin Overboard sem er endurgerð samnefndrar myndar frá árinu 1987 með þeim Kurt Russell og Goldie Hawn í aðalhlutverkum . Í aðalhlutverkum nýju myndarinnar eru hins vegar þau Anna Faris og mexíkóski grínistinn Eugenio Derbez sem við sáum síðast í myndinni How to Be a Latin Lover . Við kynnum þessa mynd nánar í næsta blaði en þangað til er auðvitað tilvalið að kíkja á bráðskemmtilega stikluna sem komin er á netið .
10 Myndir mánaðarins