Myndir mánaðarins Júní 2017 tbl. 281 bíóhluti | Page 8

Væntanleg í júlí – Dunkirk Kraftaverkið í Dunkirk Þann 19. júlí verður hin umtalaða mynd leikstjórans Christophers Nolan, Dunkirk, frumsýnd, en þeir eru margir sem bíða hennar með óþreyju, ekki bara kvikmyndaáhugafólk heldur líka áhuga- fólk um sögu, ekki síst þeir sem áhuga hafa á atburðarás síðari heimsstyrjaldarinnar. Christopher skrifaði handritið sjálfur og hefur vafalaust lagt sig fram um að lýsa atburðarásinni á sem sannferðugastan hátt en þó er einhvern veginn erfitt að ímynda sér að allt það sem gerðist á norðvesturströnd Frakklands í lok maí 1940 rúmist í einni mynd. En Nolan er auðvitað snillingur. Í stuttu máli má segja að Dunkirk fjalli um það þegar 400 þúsund hermenn Bandamanna (Frakkar, Bretar og Kanadamenn) króuð- ust inni við ströndina í Dunkirk, svo til allslausir, þ.m.t. skotfæra- lausir. Þýski herinn nálgaðist óðfluga og það var ljóst að ef mönnunum yrði ekki bjargað í tíma myndu Þjóðverjar stráfella þá alla með tölu innan örfárra daga. Til að gera stöðuna enn verri og vonlausari fyrir hermennina sem biðu björgunarinnar sveimuðu orrustuvélar Þjóðverja yfir ströndinni og pössuðu að enginn kæmist undan sjóleiðina með því að sökkva öllum skipum og bátum sem þar voru eða nálguðust hana. Staðan var því eins slæm og hún gat orðið. Vegna þess er í raun alveg ótrúlegt að Bretum skyldi samt sem áður takast að flytja rúmlega 338 þúsund hermenn yfir Ermarsundið áður en yfir lauk og það er ekki að undra að sú magnaða björgun hafi allar götur síðan verið kölluð „Kraftaverkið í Dunkirk“. En sagan er auðvitað mun viðameiri en þetta. Það er til dæmis alveg ljóst að „kraftaverkið“ hefði aldrei getað orðið að veruleika nema vegna hetjudáða þeirra sveita Bandamanna og Belga sem tókst, þrátt fyrir að eiga við ofurefli að etja, að tefja för stórskota- liðs Þjóðverja til strandarinnar. Á meðan á undanhaldi bresku, frönsku og kanadísku hermannanna stóð urðu nokkrar sveitir þeirra eftir við víglínuna og börðust þrátt fyrir að hermönnum þessara sveita væri alveg ljóst að þeir myndu deyja. En tíminn sem þeim tókst að vinna með hetjulegri mótstöðunni varð til þess að mun fleiri félagar þeirra náðu til strandarinnar en útlit var fyrir auk þess að lengja í því að Þjóðverjar næðu þangað. Á meðan vörðust Belgar einnig við sín landamæri þrátt fyrir vonlausa stöðu. Þeim eins og öðrum var alveg ljóst að uppgjöf var eina vitið ef þeir vildu ekki verða stráfelldir en ákváðu samt að berjast í 24 klukkustundir í viðbót. Þessi sólarhringur skipti sköpum í björgunaraðgerðum Breta og má því segja að her- menn Belga hafi átt mjög stóran þátt í að skapa „kraftaverkið“. Þá má einnig segja að það sem gerðist í Bretlandi á meðan á undanhaldi Bandamanna stóð sé efni í bíómynd eitt og sér. Yfirmenn breska hersins gerðu sér að sjálfsögðu grein fyrir ástandinu og hvað væri um það bil að fara að gerast og hermt er að Churchill hafi sagt við sitt fólk að „stærsti hernaðarlegi ósigur í margar aldir“ væri framundan. Hann fyrirskipaði að sjálfsögðu björgunaraðgerðir og orðaði það svo að „the whole root, the core, and brain of the British Army“ væri um það bil að fara að deyja á ströndinni í Dunkirk og að gera þyrfti allt til að bjarga þeim. Við keflinu tók hershöfðinginn Bertram Ramsay sem ásamt teymi sínu skipulagði í hraði aðgerðir sem m.a. fólust í að biðja alla Breta sem áttu skip og báta að sigla til Dunkirk strax og reyna að bjarga eins mörgum og þeir gætu. Við þessari bón urðu margir sjómenn og frístundasiglingamenn þrátt fyrir að vita að orrustuflugmenn Þjóðverja myndu gera allt sem þeir gætu til að sökkva þeim. Þeirra þáttur og þeirra hetjudáð er því ekki síður mikil og merkileg en annarra sem áttu þátt í að skapa „kraftaverkið“ í Dunkirk. Og nú er bara að bíða eftir myndinni. 8 Myndir mánaðarins Hermennirnir sem biðu björgunar á ströndinni í Dunkirk gátu sér litla sem enga björg veitt þegar orrustuvélar Þjóðverja gerðu á þá árás enda höfðu rúmlega 60 þúsund þeirra týnt lífi áður en yfir lauk. Kenneth Branagh leikur einn af yfirmönnum breska hersins sem ásamt mönnum sínum á ströndinni beið þess sem verða vildi. Mark Rylance leikur einn þeirra bátaeigenda sem svöruðu neyð- arkalli yfirvalda og sigldu til Dunkirk til að bjarga mönnum þrátt fyrir yfirgnæfandi líkur á að þeir myndu ekki lifa það af. Cillian Murphy leikur orrustuflugmann sem Mark bjargar á leiðinni til Dunkirk, en annars leika fjölmargir þekktir leikarar í myndinni.