Myndir mánaðarins Febrúar 2017 tbl. 277 Bíóhluti | Page 8

Bíófréttir - Væntanlegt
Brie Larson og Tom Hiddleston á Comic Con-ráðstefnunni í San Diego síðastliðið sumar þar sem mögnuð stiklan úr mynd Jordans Vogt-Roberts Kong : Skull Island var frumsýnd .

Feigðarflan

Ef þú hefur gaman af að sjá góðar stiklur úr væntanlegum myndum þá skaltu kíkja á stikluna úr myndinni Kong : Skull Island en hún er vægast sagt mögnuð og gefur góð fyrirheit um að hér sé á ferðinni frábær skemmtun . Eins og heitið gefur til kynna er innblásturinn sóttur í ævintýrið um risaapann King Kong en hér er samt um allt aðra atburðarás að ræða .
Myndin segir frá hópi vísinda- og hermanna sem halda í könnunarleiðangur til eyju nokkurrar í miðju Kyrrahafi sem ekki er vitað til að hafi verið könnuð áður , en grunur leikur á að á henni sé að finna verðmætar náttúruauðlindir . Það reynist rétt , en þessar auðlindir reynast af allt öðrum og mun hættulegri toga en nokkurn óraði fyrir .
Leikstjóri er Jordan Vogt-Roberts og með aðalhlutverkin fara Tom Hiddleston , Brie Larson , Samuel L . Jackson , John Goodman og John C . Reilly , en myndin verður frumsýnd 10 . mars

Saman í síðasta sinn

Þeir Patrick Stewart og Hugh Jackman ættu að vera farnir að þekkjast æði vel en þeir hittust fyrst fyrir átján árum þegar þeir léku í fyrstu X-Men-myndinni í leikstjórn Bryans Singer . Síðan hafa þeir eins og allir vita leikið í mörgum öðrum myndum um X-mennina auk þess sem gerðar hafa verið tvær sérmyndir um stökkbreytinginn sem Hugh hefur leikið , úlfamanninn Logan , sem er betur þekktur sem Wolverine .
Þann þriðja mars er komið að frumsýningu þriðju og síðustu myndarinnar um Logan og um leið er þetta síðasta X-Men-myndin sem þeir Hugh og Patrick munu leika í . Hermt er að sagan í myndinni gerist um 30 árum eftir atburðina í Apocalypse , þegar þeir Logan og Xavier hafa svo gott sem dregið sig í hlé frá skarkala heimsins og búa saman í rólegheitum einhvers staðar nálægt landamærunum að Mexíkó . En þá ber ungan gest að garði sem á eftir að hleypa öllu á ný í bál og brand .
Það lætur ekki mikið yfir sér lífið sem geimfararnir finna á Mars . En það er mörgum sinnum öflugra en það sýnist .

Það er líf á Mars

Bíómyndin Life sem er væntanleg í bíó 24 . mars er eftir leikstjórann Daniel Espinosa sem gerði hinar þrælgóðu myndir Safe House og Child 44 og er með þeim Jake Gyllenhaal , Rebeccu Ferguson og Ryan Reynolds í aðalhlutverkum . Hér er um að ræða geimvísindaskáldsögu um alþjóðlega sex manna áhöfn geimstöðvar sem við rannsóknir á sýnum frá Mars uppgötvar lífveru sem í fyrstu lítur út fyrir að vera einhvers konar jurt og algjörlega meinlaus . Það á hins vegar ekki eftir að reynast rétt og þótt lífveran sé lítil býr hún ekki bara yfir mörgum sinnum meiri krafti en nokkurn gat grunað fyrirfram heldur er hún líka miklum gáfum gædd .
Stiklan úr myndinni er hörkugóð og hver veit nema hér sé á ferðinni mynd sem eigi eftir að koma hressilega á óvart í kvikmyndahúsum heimsins ?
8 Myndir mánaðarins