Myndir mánaðarins Desember 2017 tbl. 287 Bíó | Page 14

Bíófréttir – Væntanlegt í janúar
Paddington snýr aftur
Bíómyndin um bangsann Paddington sem var frumsýnd í janúar 2015 sló í gegn enda verulega góð mynd í alla staði , vel gerð , vel leikin og mjög fyndin . Ákveðið var að gera aðra mynd um ævintýri hans og er skemmst frá því að segja að hún hefur hlotið frábæra dóma allra gagnrýnenda og þykir jafnvel enn betri en sú fyrri .
Eins og þeir vita sem sáu fyrri myndina sagði hún frá því þegar Paddington kom fyrst til Englands og kynntist Brown-fjölskyldunni og nýju vinunum sínum og þurfti auk þess að læra bæði nýja siði og venja sig á gjörbreyttar aðstæður frá því sem áður var – og að sjálfsögðu að takast á við undrun allra yfir því að til væri talandi bangsi .
Í nýju myndinni er Paddington hins vegar búinn að koma sér vel fyrir og er orðinn virtur þegn í samfélagi manna . Þegar hann fær hugmynd að góðri gjöf fyrir frænku sína sem er að verða 100 ára þarf hann að finna leið til að afla fjár svo hann eigi fyrir henni . Það gengur upp og ofan en þegar gjöfinni verðmætu er stolið úr versluninni sem hún var til sölu í vandast málið verulega því lögreglan heldur að Paddington sé sá seki . Það er hann auðvitað ekki og við tekur skondin atburðarás þar sem hvert kostulegt ævintýrið rekur annað . Myndin verður frumsýnd 12 . janúar .
Brown-fjölskyldan sem Paddington varð hluti af í fyrri myndinni er að sjálfsögðu til staðar í þeirri nýju auk fjölmargra annarra persóna , bæði nýrra og gamalla , sem eru túlkaðar af nokkrum af kunnustu og vinsælustu leikurum Breta .
Sönn saga tólf hermanna
Kvikmyndin 12 Strong er væntanleg í bíó síðustu helgina í janúar en hún er eftir leikstjórann Nicolai Fuglsig , framleidd af Jerry Bruckheimer og byggð á bók bandaríska blaðamannsins og rithöfundarins Dougs Stanton , Horse Soldiers , sem kom út árið 2009 og sat á metsölulista New York Times um margra vikna skeið . Hér er sögð sönn saga fyrstu hermannasveitarinnar sem send var til Afganistan eftir árásina á tvíburaturnana í New York 11 . september 2001 en hún var aðeins skipuð tólf mönnum og fólst verkefni hennar í að aðstoða afganska vinasveit Bandaríkjanna , undir stjórn herforingjans Abduls Rashid Dostum , í baráttunni við talíbana í norðanverðu landinu . Ljóst var frá upphafi að þessi för yrði hættulegri en flestar aðrar enda voru talíbanarnir bæði fjölmennari en sveitir Abduls og , ólíkt bandarísku sveitinni , á heimavelli .
Með aðahlutverkin í 12 Strong fara þeir Chris Hemsworth , Michael Shannon , Michael Peña , Navid Negahban , Trevante Rhodes , William Fichtner og Rob Riggle auk Elsu Pataky sem leikur eiginkonu persónunnar sem Chris Hemsworth leikur en þau tvö eru hjón í raunveruleikanum og er þetta í fyrsta sinn sem þau leika saman í mynd . Fyrsta stiklan úr myndinni lofar vægast sagt góðu og við kynnum hana auðvitað nánar í næsta blaði .
Bíræfin bankarán
Den of Thieves heitir fyrsta mynd leikstjórans Christians Gudegast en hann hefur getið sér gott orð fyrir handritsgerð og skrifaði m . a . handrit myndanna A Man Apart og London Has Fallen . Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum í janúar og býður upp á hörkuhasar , bílaeltingarleiki og marga byssubardaga .
Sagan er um bíræfið gengi nokkurra bankaræningja sem hefur gert mikinn usla í Kaliforníu með þaulskipulögðum ránum og komist undan með milljónir dollara . Nú er gengið að skipuleggja rán í banka sem ómögulegt á að vera að ræna , en þar eru geymdar stjarnfræðilegar fjárhæðir í beinhörðum peningum . Á sama tíma hafa yfirvöld kallað til helsta sérfræðing landsins í upprætingu svona gengja , sérsveitarmanninn Nick Flanagan sem Gerard Butler leikur , og framundan er æsileg barátta sem á eftir að fara öðruvísi en flestir halda . Kíkið á nánari kynningu á þessari mynd í næsta blaði og skoðið hörkugóða stikluna sem er komin á netið .
Gerard Butler leikur sérsveitarmanninn Nick Flanagan sem er sérfræðingur í að uppræta alls kyns glæpagengi .
14 Myndir mánaðarins