Myndir mánaðarins Desember 2017 tbl. 287 Bíó | Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt í janúar Kostirnir við að minnka sig Þrír af aðalleikurum myndarinnar Downsizing stilla sér hér upp til myndatöku á kvikmyndahátíðinni í Toronto, en þetta eru eins og sjá má þeir Matt Damon, sem fer með stærsta hlutverkið, og Christoph Waltz, og á milli þeirra er tælenska leikkonan Hong Chau sem fer með annað af tveimur stærstu kvenhlutverkunum ásamt Kristen Wiig. Downsizing er eftir tvöfalda Óskarsverðlaunahafann Alexander Payne sem hlaut verðlaunin fyrir myndir sínar The Descendants og Sideways og á einnig að baki snilldarmyndirnar About Schmidt og Nebraska. Sem fyrr skrifar Alexander söguna og handritið sjálfur en myndin segir frá samfélagi framtíðarinnar þar sem mannfólkinu er gefinn kostur á því að láta minnka sig niður í tíu prósent stærð frá því sem nú er. Helsti samfélagskosturinn við þetta er að þannig má sporna gegn mannfjölguninni því 10% fólk tekur að sjálfsögðu bara 10% pláss og fyrir einstaklingana sjálfa er 10% líf auðvitað miklu ódýrara, t.d. húsin, maturinn, orkan, efnið og fleira sem fólk í fullri stærð þarf að nota í meira mæli. Matt Damon leikur einn þeirra sem fellur fyrir hugmyndinni og lætur minnka sig en að sjálfsögðu á eftir að koma í ljós að minnkuninni fylgja líka nokkrir ókostir. Myndin þykir í senn ákaflega fyndin og skörp samfélagsádeila en hún verður frumsýnd aðra helgina í janúar, nánar tiltekið þann tólfta. Hver er morðinginn? Bandaríska leikkonan Frances McDormand fær hér koss á hvora kinn frá tveimur af helstu mótleikurum sínum í myndinni Three Billboards Outside Ebbing, Missouri, þeim Woody Harrelson og Sam Rockwell, þar sem þau voru viðstödd frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni í London á dögunum. Myndin, sem er eftir enska leikstjórann Martin McDonagh (In Bruges, Seven Psychopaths), hefur hlotið frábæra dóma og er þegar komin á lista margra gagnrýnenda sem ein af tíu bestu myndum ársins 2017 á enskri tungu. Hún hefur enn fremur hlotið fjölmörg verðlaun og þykir nú afar líkleg til að hljóta a.m.k. fimm til- nefningar til Óskarsverðlauna, Frances fyrir aðalhlutverk kvenna, Sam fyrir aukahlutverk karla, Martin fyrir leikstjórn og handrit og svo myndin sjálf sem besta mynd ársins. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri verður frumsýnd hér á landi í janúar en hún segir frá konu að nafni Mildred sem býr í smábænum Ebbing og grípur til sinna ráða þegar henni finnst lögreglustjórinn og menn hans slá slöku við í rannsókninni á morði dóttur hennar sem var myrt fyrir sjö mánuðum. Myndin er því að grunni til saka- málasaga og morðgáta en um leið svört kómedía og með helstu hlutverk önnur í henni fara þau Abbie Cornish, Lucas Hedges, Caleb Landry Jones, Peter Dinklage og John Hawkes. Skoðið endilega frábærar stiklurnar. Gátan leyst Það bíða sjálfsagt margir eftir síðustu myndinni í The Maze Runner-þríleiknum en eins og kunnugt er slasaðist aðalleikarinn Dylan O’Brien við tökur á henni í mars 2016 með þeim afleiðingum að fresta þurfti tökum um nokkra mánuði á meðan hann jafnaði sig. Ofan á það þurfti hann svo einnig að sinna öðrum verkefnum sem hann hafði skuldbundið sig í og því fór svo að upphafleg frumsýningaráætlun tafðist í heilt ár. En allt er gott sem endar vel og verður myndin, sem ber undirtitilinn The Death Cure, frumsýnd 26. janúar. Í henni eru liðin rúmlega þrjú ár frá því að Thomas og félagar hans festust upphaflega í hinu dularfulla völundarhúsi og nú er komið að því að leysa gátuna í eitt skipti fyrir öll. 12 Myndir mánaðarins Þau Sam Rockwell og Frances McDormand verða mjög líklega bæði tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.