Myndir mánaðarins Janúar 2018 tbl. 288 Bíó - Page 32

The Post Landráð eða almannahagsmunir? The Post er nýjasta mynd Stevens Spielberg og um leið fyrsta myndin sem stórleikararnir Tom Hanks og Meryl Streep leika saman í en hún er nú tilnefnd til sex Golden Globe-verðlauna, þ.e. fyrir leik þeirra beggja í aðalhlutverkum karla og kvenna, fyrir leikstjórn, handrit og tónlist, og sem besta mynd ársins. The Post gerist árið 1971 en á fyrri hluta þess árs komust blaðamenn dagblaðsins The Washington Post yfir ríkistrúnaðarskjöl sem síðan hafa verið kölluð „The Pentagon Papers“. Gögnin innihéldu m.a. viðamiklar upplýsingar um afskipti Bandaríkjastjórnar af innan- ríkismálum Víetnam allt frá árinu 1945 og átti þessi gagnaleki eftir að valda gríðarlegum skjálfta í æðsta stjórnkerfi Bandaríkjanna. Í gang fór mikil barátta, annars vegar ritstjórnar blaðsins sem taldi sig hafa rétt á að birta þessar upplýsingar vegna hagsmuna almennings og prentfrelsisákvæða og hins vegar ríkisstjórnar Nixons og lögfræðingateymis hennar sem hótaði því fullum fetum að ákæra þá fyrir landráð sem birtu upplýsingar úr skjölunum. Slík ákæra, hefðu dómarar tekið undir réttmæti hennar, hefði ekki bara gert út af við blaðið heldur komið bæði ritstjórum, blaðamönnum og eigendum þess í margra ára fangelsi, jafnvel til áratuga. Hvaða ákvörðun áttu eigendur blaðsins og ritstjórn að taka í málinu? The Post Sannsögulegt 116 mín Aðalhlutverk: Meryl Streep, Tom Hanks, Sarah Paulson, Tracy Letts, Bob Odenkirk, Bradley Whitford, Bruce Greenwood, Matthew Rhys og Alison Brie Leikstjórn: Steven Spielberg Bíó: Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Akureyri og Keflavík, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó, Eyjabíó, Bíóhöllin Akranesi, Króksbíó og Skjaldborgarbíó Frumsýnd 19. janúar Það ríkti að vonum mikil spenna á meðal starfsfólks The Washington Post á meðan á storminum stóð, en á meðal leikara sem þarna sjást eru þau Tom Hanks, Meryl Streep, Philip Casnoff, David Cross, Tracy Letts, Bradley Whitford, Jessie Mueller og Carrie Coon. Punktar .................................................... Kay Graham, sem Meryl Streep leikur í The Post, fór einnig fyrir eigendahópi The Washington Post þremur árum eftir atburði þessarar myndar þegar þeir Bob Woodward og Carl Bernstein komust á snoðir um þau mál sem leiddu til Watergate-hneykslisins. l Meryl Streep leikur Kay Graham sem fór fyrir eigendahópi blaðsins. Veistu svarið? Þótt The Post sé fyrsta myndin eftir Steven Spielberg sem Meryl Streep birtist í hafa þau unnið saman áður því Meryl ljáði tölvunni „The Blue Fairy“ rödd sína í frægri vísindaskáldsögu sem Steven sendi frá sér árið 2001. Hvaða mynd er um að ræða? Tom Hanks leikur ritstjórann Ben Bradlee sem fékk um nóg að hugsa sumarið 1971, enda hótaði ríkisstjórn Bandaríkjanna að ákæra hann og starfslið hans fyrir landráð ef blað þeirra birti trúnaðarupplýsingarnar. A.I. Artificial Intelligence. 32 Myndir mánaðarins