Myndir mánaðarins September 2018 tbl. 296 Bíóhluti - Page 8

Myndasyrpa Hér stilla sér upp tíu helstu persónur og leikendur í annarri Fantastic Beasts-myndinni, The Crimes of Grindelwald, sem verður ein af aðalmyndum nóvembermánaðar í kvikmyndahúsum heimsins. Þetta eru þau Jude Law (Albus Dumbledore), Ezra Miller (Credence Barebone), Claudia Kim (Maledictus), Zoë Kravitz (Leta Lestrange), Callum Turner (Theseus Scamander), Katherine Waterston (Tina Goldstein), Eddie Redmayne (Newt Scamander), Dan Fogler (Jacob Kowalski), Alison Sudol (Queenie Goldstein) og Johnny Depp sem leikur örlagavaldinn Gellert Grindelwald. Fjölmargir aðrir leikarar koma við sögu, þar á meðal okkar menn, Ólafur Darri Ólafsson og Ingvar Eggert Sigurðsson, sem leika þá Skender og Grimmson. Leikstjóri er David Yates sem leikstýrði síðustu þremur Harry Potter-myndunum, Order of the Phoenix, Half-Blood Prince og Deathly Hallows, fyrstu Fantastic Beasts-myndinni og leikstýrir einnig næstu þremur Fantastic Beasts-myndunum sem koma í bíó 2020, 2022 og 2024. Eins og margir hafa vafalaust heyrt er nú verið að taka upp nýja Terminator-mynd þar sem Linda Hamilton snýr aftur sem Sarah Connor í leikstjórn Tims Miller sem skrifaði einnig söguna, en Tim gerði eins og kunnugt er fyrri Deadpool-myndina. Ekkert hefur verið látið uppi um söguþráð nýju myndarinnar en á Imdb er hún sögð vera „Reboot“ sem undir venjulegum kringumstæðum myndi þýða að verið væri að byrja á fyrsta kafla sögunnar upp á nýtt. Hvort það sé rétt og standist verður bara að koma í ljós með tímanum en áætlað er að frumsýna myndina í nóvember á næsta ári. Á myndinni hér til vinstri eru aðalleikararnir þrír, þau Natalia Reyes, Mackenzie Davis og Linda Hamilton, og fyrir stuttu var tilkynnt að Arnold Schwarzenegger yrði líka með. Og nú er bara að bíða fram á næsta sumar eftir að línurnar skýrist og í ljós kemur um hvað sagan er. Tom Cruise er ekki bara duglegur að leika í myndum heldur lætur hann ekki sitt eftir liggja í kynningum á þeim. Nýjasta mynd hans, Mission Impossible: Fallout hefur eins og allir vita slegið rækilega í gegn og á mikið eftir því hún er víða um lönd enn á toppnum. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Tom kom til Japans að kynna myndina og fékk að sjálfsögðu hlýjar móttökur. Um mánaðamótin ágúst/september verður hann svo í Kína þar sem frumsýningar- dagurinn er 31. ágúst. Þar er búist við að myndin geri það gott eins og annars staðar enda er Tom í miklu uppáhaldi hjá Kínverjum sem eiga örugglega eftir að kunna að meta Fallout eins og aðrir. Næsta mynd Toms er svo Top Gun-myndin Maverick sem til stendur að frumsýna í júlí á næsta ári og þar á eftir kemur myndin Luna Park þar sem hann og leikstjórinn Doug Liman taka höndum saman í þriðja sinn eftir að hafa gert Edge of Tomorrow og American Made. Þá mynd stendur til að frumsýna sumarið 2020, en það hefur ekki verið staðfest. 8 Myndir mánaðarins