Myndir mánaðarins Nóvember 2018 tbl. 298 Bíómyndir - Page 14

Væntanlegt í desember Hin sígilda saga um Hróa hött og félaga hans í Skírisskógi í Nott- ingham er hér uppfærð af leikstjóranum Otto Bathurst í fjörugan grínhasar sem á alla möguleika á að njóta mikilla vinsælda, a.m.k. ef mið er tekið af bráðskemmtilegum stiklunum úr henni. Það er Taron Egerton sem nú bregður sér í hlutverk hins bogfima Hróa sem eins og þeir vita sem þekkja sögurnar rænir af þeim ríku til að gefa þeim fátæku. Erkióvinur hans er sem fyrr fógetinn í Nottingham sem í skjóli valda sinna skattpínir alþýðuna og rænir af þeim uppskerunni til þess að verða sem ríkastur sjálfur. Það er einmitt við því óréttlæti sem Hrói og félagar hans hafa brugðist og í þessari mynd kemur til átaka sem sögð eru eiga engan sinn líka. Í stærstu hlutverkunum fyrir utan Taron eru Jamie Foxx sem Litli- Jón, Jamie Dornan sem Vilhjálmur skarlat, Eve Hewson sem María og Ben Mendelsohn sem leikur fógetann. Væntanleg 7. desember. Jamie Foxx leikur Litla-Jón og Taron Egerton leikur Hróa hött í þessari gamansömu hasarmynd um hetjurnar frá Skírisskógi. 14 Myndir mánaðarins The Sisters Brothers er blanda af vestra og kolsvartri kómedíu en hún gerist á tímum gullæðisins í Kaliforníu um miðja nítjándu öld. Þeir Joaquin Phoenix og John C. Reilly leika bræðurna Charlie og Eli Sisters sem hafa tekið að sér að elta uppi gullleitarmann að nafni Hermann Warm fyrir mann sem er alltaf kallaður „Commo- dore“ (Rutger Hauer), en hann segir að Hermann þessi hafi stolið af sér fé. Óhætt er að segja að ferð bræðranna og leit þeirra að Hermanni verði þyrnum stráð enda kemur í ljós að það eru fleiri en þeir sem vilja hafa hendur í hári hans. Ekki bætir úr skák að Eli hefur miklar efasemdir um að Commodore hafi verið að segja satt og Charlie er sífellt að detta í það með tilheyrandi töfum og veseni. Auk Joaquins og Johns leika þeir Jake Gyllenhaal og Riz Ahmed stærstu hlutverkin í myndinni, en þeir léku einnig tvö stærstu hlutverkin í hinni þrælgóðu mynd Nightcrawler hér um árið. Joaquin Phoenix og John C. Reilly sem Sisters-bræðurnir Charlie og Eli sem hafa verið sendir til að drepa gullleitarmanninn Hermann Warm.