Myndir mánaðarins Nóvember 2018 tbl. 298 Bíómyndir - Page 12

Bíófréttir – Væntanlegt 12 Christian Bale þykir sanna það enn og aftur í myndinni Vice að hann er einn af bestu leikurum allra tíma, en í myndinni bregður hann sér í hlut- verk fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Dicks Cheney, og þykir gera það af þvílíkri snilld að hann rauk beint inn á topp 5-listann hjá þeim sem spá fyrir um þá og þær sem hljóta munu tilnefningar til Óskarsverðlaunanna fyrir aðalhlutverk á næsta ári. Myndin, sem er eftir leikstjórann, handritshöf- undinn og Óskarsverðlaunahafann Adam KcKay (The Big Short, The Other Guys, Step Brothers) er reyndar sögð ein besta mynd ársins en hún verður ekki frumsýnd fyrr en í lok desember í Bandaríkjunum og fer ekki í almenna dreifingu annars staðar fyrr en í janúar. Með helstu hlutverk önnur fara þau Amy Adams sem leikur eiginkonu Dicks, Lynne, Sam Rockwell sem leikur George W. Bush, Steve Carell sem leikur Donald Rumsfeld og Jesse Plemons, en það er ekki gefið upp af einhverjum ástæðum í hvaða hlutverki hann er. Við hvetjum alla til að kíkja á stikluna úr Vice sem er vel þess virði að sjá. Enn ein ef þeim myndum sem taldar eru líklegar til afreka á væntanlegum verðlaunahátíðum er On the Basis of Sex eftir leikstjórann Mimi Leder sem gerði síðast myndina Thick as Thieves og þar á undan Pay It Forward. Myndin er gerð eftir handriti Daniels Stiepleman og segir sögu lögfræðingsins, háskólaprófessorsins og baráttukonunnar Ruthar Bader Ginsburg sem stóð m.a. að stofnun ýmissa samtaka í Bandaríkjunum á áttunda áratug síð- ustu aldar sem höfðu það að markmiði að jafna launamun karla og kvenna fyrir sams konar störf og eyða öllum lögum sem byggðu á og mismunuðu fólki eftir kynferði þeirra. Þann 10. ágúst árið 1993 varð hún síðan önnur konan í sögunni til að vera skipuð hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, en í því embætti situr hún enn í dag. Það er Felicity Jones sem leikur Ruth og er hún nú fyrir vikið ein af þeim fimm leikkonum sem líklegastar þykja til að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna á næsta ári. Með önnur stór hlutverk í myndinni fara m.a. þau Armie Hammer, Kathy Bates og Sam Waterston. Þessi ljósmynd af leikkonunum Rachel Weisz, Oliviu Colman og Emmu Stone var tekin við upp- haf kvikmyndahátíðarinnar í London 10. október, en þar voru þær mættar til að vera viðstaddar hátíðarsýningu á nýjustu mynd gríska leikstjórans Yorgos Lanthimos, The Favorite. Myndin, sem er þriðja myndin sem Yorgos gerir á ensku á eftir The Lobster og The Killing of a Sacred Deer hefur fengið frábæra dóma en hún er jafnframt fyrsta myndin sem hann gerir eftir handriti annars en sjálfs síns. The Favorite byggir að hluta til á sannri sögu og gerist í kringum árið 1710 við hirð hinnar heilsulausu Önnu Bretadrottningar þar sem tvær konur, Sarah Churchill og Abigail Masham, lenda í harðri innbyrðis baráttu um hylli drottningarinnar, henni sjálfri (og áhorfendum) til talsverðrar skemmtunar. Þær Rachel, Emma og Olivia þykja fara á algjörum kostum í aðalhlutverkunum og er sú síðastnefnda komin á topplistann yfir þær fimm leikkonur sem taldar eru líklegastar til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna, en hún leikur Önnu drottningu. The Kid Who Would Be King er nafnið á unglinga- og ævintýramynd eftir enska leikstjórann Joe Cornish sem sendi síðast frá sér hina þrælgóðu mynd Attack the Block. Myndin segir frá hinum tólf ára Alex (Louis Ashbourne Serkis, sonur Andys Serkis) sem fyrir tilviljun finnur sverð Artúrs konungs, Excalibur. Um leið leysir hann úr læðingi myrk öfl fyrri alda sem hlýða skipunum seiðkonunnar grimmu, Morgönu (Rebecca Ferguson), sem nú hefur fengið aðgang að okkar tímum og ætlar ekki að láta það tækifæri sér úr greipum ganga. Ef ekki á illa að fara fyrir mannkyninu neyðist Alex nú til að safna liði skólafélaga sinna og berjast við Morgönu og ófrýnilegan her hennar, en í þeirri baráttu fær hann óvæntan stuðning frá galdrakarlinum Merlin (Patrick Stewart) til að verða sú hetja sem hann dreymdi aldrei um að hann gæti orðið. The Kid Who Would Be King er á dagskrá kvikmyndahúsanna í febrúar og þykir líkleg til að slá í gegn á meðal ævintýraunnenda. Kíkið á skemmtilega stikluna sem er nýkomin á Netið og lofar góðu. Myndir mánaðarins