Myndir mánaðarins Júní 2018 tbl. 293 Bíóhluti - Page 8

Bíófréttir – Væntanlegt Önnur stiklan sem við nefnum hér er frá Warner Bros og er líka byggð á þekktri bók en hún er í leikstjórn Andys Serkis, meistara „motion capture“-tækninnar. Myndin nefnist Mowgli eftir titilpersón- unni og er gerð eftir hinum frægu sögum Rudyards Kipling sem nefnast einu nafni Jungle Book, eða Skógarlíf eins og þær eru oftast nefndar á íslensku (hétu upphaflega Dýrheimar á íslensku) en þessar sögur komu út í tveimur bindum árið 1894 eftir að hafa upphaflega birst í bandarískum tímaritum. Að sögn Andys sjálfs var sú stefna tekin við gerð myndarinnar að reyna að fanga andrúmsloft sagnanna eins vel og framast var unnt en þær gerast í Indlandi eins og flestir vita og segja frá hinum unga Mowgli sem elst upp á meðal úlfa í frumskóginum og eignast með tímanum marga góða vini úr dýraríkinu, en líka óvini. Stiklan lítur ákaflega vel út, vægast sagt, og það er greinilegt að gríðarlegur metnaður liggur að baki gerðar myndarinnar sem á vonandi eftir að skila sér til fulls þegar hún verður frumsýnd í október. Þess má til gamans geta að í einni útgáfu stiklunnar útskýrir Andy Serkis atriðin sem sjást og hugmyndirnar að baki bæði þeim og sviðsetningu myndarinnar. Fyrir áhugafólk er mjög fróðlegt að hlusta á frásögn hans. Sagan á bak við söguna Bíómyndin Mamma Mia! sló í gegn árið 2008 enda einstaklega skemmtileg, fyndin og fjörug mynd. Hún var eins og allir vita byggð í kringum lög og texta hljómsveitarinnar ABBA og skart- aði frábærum leikhópi sem kom á óvart með söng og dansi. Þann 18. júlí verður ný Mamma Mia-mynd frumsýnd, Here We Go Again. Í henni snúa allir helstu leikarar fyrri myndarinnar aftur auk nýrra en í myndinni er líka farið til baka í tímann og sagt frá því þegar Donna (Meryl Streep) hitti fyrst hina þrjá feður Sophie (Amanda Seyfried) og hún varð til. Með hlutverk Donnu þegar hún var ung fer Lily James en í öðrum hlutverkum aðalpersónanna þegar þær eru ungar eru tiltölulega óþekktir leikarar sem eiga það þó sameiginlegt að vera mjög líkir sínu eldra sjálfi! Cher mætir einnig á svæðið sem amma Amöndu. Við fjöllum betur um þennan væntanlega stórsmell í næsta blaði. Stökkið mikla sem Tom Cruise framkvæmdi við tökur á sjöttu Mission Impossible-myndinni með þeim afleiðingum að hann ökklabrotnaði. Tvær stiklur hafa verið gefnar út úr sjöttu Mission Impossible- myndinni, Fallout, sem verður frumsýnd hér á landi 1. ágúst. Þær eru báðar allsvakalegar enda innihalda þær sirka tvær milljónir mismunandi áhættuatriða og það fer ekkert á milli mála að hugmyndin hefur verið að toppa allt sem áður hefur sést í þessum myndum hvað slík atriði varðar. Í stiklunum sést Tom Cruise geysast um borgir og lönd, loftin blá og fjöll og firnindi, bæði á tveimur jafnfljótum og á ýmsum farartækjum, og af atriðunum að dæma hlýtur hann að deyja a.m.k. fimm sinnum í myndinni (hann dó bara einu sinni í síðustu mynd). Fallout á því áreiðanlega eftir að verða hasarmynd ársins. Um leikstjórnina sá Christopher McQuarrie sem gerði einnig síðustu mynd, Rogue Nation, og fyrir utan Ethan Hunt koma bæði nýir og gamlir kunningjar við sögu sem m.a. þau Rebecca Ferguson, Simon Pegg, Ving Rhames, Vanessa Kirby, Henry Cavill, Michelle Monaghan, Angela Bassett, Alec Baldwin og Wes Bentley leika. Þess má geta að slysið sem Tom Cruise lenti í og frestaði tökum á myndinni um nokkra mánuði, þ.e. þegar hann ökklabrotnaði í einu áhættuatriðinu þar sem hann var að stökkva á milli húsþaka, er notað í myndinni, a.m.k. samkvæmt stiklunum. 8 Myndir mánaðarins Amanda Seyfried og Meryl Streep leika sem fyrr mæðgurnar Sophie og Donnu sem nú rifja upp hvernig Sophie varð til. Þeir Colin Firth, Stellan Skarsgård og Pierce Brosnan mæta að sjálfsögðu aftur á svæðið sem þeir Harry, Bill og Sam.