Myndir mánaðarins Júlí 2018 tbl. 294 Bíóhluti - Page 8

Bíófréttir – Væntanlegt Ryan Gosling leikur Neil Armstrong í First Man eftir Damien Chazelle. Nýjasta mynd leikstjórans Damiens Chazelle, sem gerði myndirnar Whiplash og La La Land og hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir leikstjórn þeirra beggja og styttuna sjálfa fyrir þá síðarnefndu, er nú svo gott sem klár en hún nefnist First Man og verður frumsýnd í október. Eins og í La La Land er það Ryan Gosling sem fer með aðalkarlhlutverkið en myndin er byggð á bók James R. Hansen um Neil Armstrong sem þann 20. júlí árið 1969 varð fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Myndin fjallar samt ekki um tunglgönguna sjálfa heldur fyrst og fremst um undirbúninginn og Armstrong sjálfan en bæði hann og samferðamenn hans til tunglsins, þeir Buzz Aldrin og Michael Collins, gátu að sjálfsögðu átt von á dauða sínum enda hafði svona ferð aldrei verið farin áður og því var áhættustuðullinn hár. Á dögunum var fyrsta stiklan úr myndinni frumsýnd og er óhætt að segja að hún lofi góðu. Kíkið á hana. Tiffany Haddish og Kevin Hart elda saman grátt silfur í Night School. Ein af þeim myndum sem frumsýna á í sept- ember er nýjasta gamanmynd leikstjórans Malcolms D. Lee (The Best Man, Girls Trip) en hún nefnist Night School og er að stór- um hluta skrifuð af aðalleikaranum, grín- istanum Kevin Hart. Myndin segir frá Teddy Walker sem finnst hann vera fastur í öngstræti því vegna menntunarskorts fær hann að eigin mati ekki starf við hæfi og því síður laun sem nægja til að framfleyta fjölskyldunni sem hann langar að búa til. Reyndar er ekki beint um menntunarskort að ræða heldur öllu frekar einkunnaskort því Teddy hafði flosnað upp úr náminu ungur að árum og aldrei lokið framhaldsskólaprófi. Til að ráða bót á þessu ákveður Teddy að fara í kvöldskóla, en málið vandast þegar hann uppgötvar að kennari hans gerir kröfur og mun ekki láta hann komast upp með neitt annað en að læra t.d. í alvörunni þá stærðfræði sem þarf að kunna skil á til að ná prófinu. Og hvað annað getur Teddy þá gert en að leggja á ráðin um að stela prófgögnunum? Kíkið endilega á bráðfyndna stikluna. 8 Myndir mánaðarins Það bíða margir spenntir eftir að sjá hvernig Bradley Cooper hefur tekist til við gerð sinnar fyrstu myndar sem leikstjóri, en hún heitir A Star is Born og er eins og flestir vita byggð á samnefndri mynd frá árinu 1937 sem var með þeim Fredric March og Janet Gaynor í aðalhlutverkum og naut gríðarlegra vinsælda á sínum tíma. Sagan var síðan endurgerð af George Cukor árið 1954 með James Mason og Judy Garland í aðalhlutverkunum og svo aftur af Frank Pierson árið 1976, en þar voru Kris Kristofferson og Barbra Streisand í aðalhlutverkum. Þann 5. október er sem sagt komið að útgáfu Bradleys Cooper sem leikur sjálfur aðalhlutverkið ásamt Stefani Joanne Angelinu Germanottu, öðru nafni Lady Gaga. Sagan fjallar í stuttu máli um kántrísöngvara sem kominn er af hátindi frægðar sinnar og er á svo gott sem sjálfskipaðri hraðferð niður og á útleið, ekki síst vegna óhóflegrar drykkju og meðfylgjandi kæruleysis. Dag einn hrífst hann mjög af framkomu óþekktrar söngkonu og ákveður í framhaldi af nánari kynnum þeirra að aðstoða hana við að ná frekari frama og frægð þótt hann sé sjálfur að brenna út. Fyrsta stiklan úr myndinni var frumsýnd fyrir skömmu og til að gera langa sögu stutta eru margir í Hollywood farnir að gera því skóna að myndin verði ein þeirra sem keppa muni um Óskarsverðlaunin á næsta ári. Við sjáum til með það og bíðum róleg til 5. október. Bradley Cooper og Lady Gaga í hlutverkum sínum sem þau Jackson og Ally, en þetta er fyrsta aðalhlutverk Lady Gaga í bíómynd.