Myndir mánaðarins Júlí 2018 tbl. 294 Bíóhluti - Page 10

Bíófréttir – Væntanlegt Leikstjórinn Fede Alvarez ásamt aðalleikurunum í The Girl in the Spider’s Web, Claire Foy sem leikur Lisbeth Salander og Sverri Guðnasyni sem leikur blaðamanninn Mikael Blomkvist. Lisbeth Salander snýr aftur á stóru tjöldin í bíó í október þegar nýjasta myndin um hana og blaðamanninn Mikael Blomkvist verður frumsýnd. Myndin er gerð eftir fjórðu bókinni um þau og málin sem þau glíma við en hún kom út 2015 og er eftir rithöfundinn David Lagercrantz sem var fenginn til að halda áfram með söguna um þessar persónur sem Stieg Larsson skapaði í bókunum Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi, áður en hann féll frá árið 2005, aðeins rúmlega fimmtugur að aldri. Fjórða bókin, sem heitir á sænsku Det som inte dödar oss, hlaut mjög góðar viðtökur og fékk David mikið hrós fyrir hversu vel hann fylgdi stíl Stiegs og ekki síður að honum skyldi takast að ná fullkomlega utan um persónur hans. Det som inte dödar oss var þegar þýdd á hátt í fjörutíu tungumál, þ. á m. á íslensku af Höllu Kjartansdóttur, og heitir Það sem ekki drepur mann á íslensku. Á ensku heitir hún hins vegar The Girl in the Spider’s Web í samræmi við fyrri heiti á bókum Stiegs á ensku sem byrja allar á „The Girl ...“. Sagan í henni gerist nokkrum árum eftir atburðina í Loftkastalinn sem hrundi og þau Lisbeth og Mikael hafa ekki talast við í langan tíma. Að því kemur þó auðvitað að leiðir þeirra liggja saman á ný við rannsókn dularfulls og hrottalegs morðs þar sem fleira býr að sjálfsögðu að baki en sýnist í fyrstu. Með hlutverk Lisbeth í þetta sinn fer enska leikkonan Claire Foy og í hlutverki Mikaels er nú Íslendingurinn Sverrir Guðnason sem síðast túlkaði Björn Borg snilldarlega í myndinni Borg McEnroe. Um leikstjórnina sá hins vegar Úrúgvæinn Fede Alvarez sem sendi síðast frá sér spennutryllinn Don’t Breathe. The Girl in the Spider’s Web verður frumsýnd í lok október og er óhætt að segja að fyrsta stiklan úr henni sem frumsýnd var á dögunum lofi góðu. Þess ber að geta að til stendur einnig að kvikmynda bók númer fimm, Mannen som sökte sin skugga, en hún nefnist á ensku The Girl Who Takes an Eye for an Eye og Stúlkan sem gat ekki fyrirgefið í íslenskri þýðingu Höllu Kjartansdóttur. 10 Myndir mánaðarins Jennifer Gardner mun heldur betur hlaða byssurnar í spennu-, hasar- og hefndarmyndinni Peppermint sem er væntanleg í bíó í september og er í leikstjórn Pierre Morel sem gerði hasarmyndirnar Banlieue 13 (District 13) og fyrstu Taken-myndina. Þar leikur hún Riley North sem missir eiginmann sinn og dóttur í skotárás þriggja manna sem eru á vegum voldugs eiturlyfjakóngs. Morðingjarnir þrír nást en málinu gegn þeim er vísað frá vegna „skorts á sönnunargögnum“. Hið rétta er að bæði hluti lögreglumannanna sem stóðu að handtökunni og dómarinn eru á launaskrá eiturlyfjakóngsins. Eftir sýndarréttarhöldin lætur Riley sig hverfa í fimm ár. Þau notar hún til að læra bæði á skotvopn og æfa bardagatækni, enda er hún staðráðin í að ná fram réttlæti á þeim mönnum sem sviptu hana því sem hún unni heitast. Þar duga ekki bara þeir þrír sem frömdu verknaðinn heldur allir sem eru á launaskrá eiturlyfjakóngsins að honum sjálfum meðtöldum svo og þeim spilltu lögreglumönnum sem hylmdu yfir með morðingjunum og að sjálfsögðu dómaranum. Fyrsta stiklan úr Peppermint var frumsýnd fyrir skömmu og geta áhugasamir hasarmyndaunnendur að sjálfsögðu séð þar á hverju þeir eiga von þegar myndin kemur í bíó, en það lítur vel út. Kvikmyndin Searching eftir leikstjórann og handritshöfundinn Aneesh Chaganty vakti mikla athygli á Sundance-kvikmynda- hátíðinni í febrúar þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaunin sem besta myndin í sínum flokki. Myndin fjallar um mann að nafni David Kim (leikinn af John Cho sem lék m.a. Harold í Harold & Kumar-myndunum og Sulu í Star Trek-myndunum) sem bregður í brún einn góðan veðurdag þegar hann uppgötvar að sextán ára dóttir hans, Margot, er horfin. Eftir að hafa leitað hennar og vísbendinga um hvað orðið hafi af henni án árangurs setur hann sig í samband við lögregluna. Þar tekur við málinu lögreglukonan