2.tbl. 44.árg. júní 2016 | Page 5

Sigríður Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 3. október 1934 og lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 13. janúar 2016. Foreldrar hennar voru hjónin Pétur Jóhannsson f. 18.12.1900, d. 22.12.1985 og Margrét Guðlaugsdóttir, f. 6.5.1901, d. 18.11.1976. 29. janúar 1959 giftist hún eftirlifandi eiginmanni sinum, Kjartani Georgsyni og sama ár hófu þau búskap að Ólafsvöllum, Skeiðum og eignuðust þau 3 börn, Pétur, Margréti og Georg. Minningarorð Við höfum kvatt heiðursfélaga HRFÍ, Sigríði Pétursdóttur frá Ólafsvöllum. Það er mikill missir fyrir félagið okkar að hennar skuli ekki njóta við lengur, en efst er okkur í huga þakklæti fyrir það brautryðjendastarf sem hún vann í þágu íslenska þjóðarhundsins og hundaræktar á Íslandi. Sigríður tók snemma ástfóstri við íslenska fjárhundinn og átti stóran þátt í að bjarga hundakyninu sem var nærri útdautt á fyrri hluta síðustu aldar. Saga björgunar íslenska fjárhundsins verður ekki rakin hér, en Sigríður var þar í lykilhlutverki ásamt þeim Sir Mark Watson, miklum velgjörðarmanni Íslendinga, og Páli A. Pálssyni yfirdýralækni á Keldum. Að áeggjan Watson fór Sigríður þrjár ferðir til Englands á árunum 1965-1967 þar sem hún kynnti sér allt sem viðkom hundaræktun, m.a. undir handleiðslu enska hundaræktarfélagsins, The English Kennel Club. Árið 1967 hóf hún síðan, í samvinnu við Pál, markvissa ræktun á íslenska fjárhundinum hér á landi. Fyrstu hundar Sigríðar voru allmikið skyldir og fékk hún leyfi til að flytja til Íslands tvo íslenska hvolpa frá Bretlandi sem Watson gaf henni, til að auka erfðabreytileika stofnsins. Áralangt hugsjónastarf Sigríðar bar svo sannarlega ávöxt, en í dag eigum við sterkan og heilbrigðan stofn íslenskra fjárhunda og góðan hóp af áhugasömum ræktendum sem varðveita kynið fyrir komandi kynslóðir. Eftir kynni Sigríðar Pétursdóttur af enska hundaræktarfélaginu vaknaði áhugi hennar á stofnun hundaræktarfélags á Íslandi. Hafði hún forgöngu um að félagið okkar, Hundaræktarfélag Íslands, var stofnað árið 1969, með það helsta markmið að vernda og rækta íslenska fjárhundinn. Jafnvel þá hugsaði Sigríður lengra og stærra. Þannig kom hún í veg fyrir að félagið héti Hundaræktunarfélagið og lagði mikla áherslu á að þetta væri Hundaræktarfélag, félag sem legði rækt við hunda, félag fyrir alla hundaeigendur. Sigríður fékk Gunnlaug Skúlason, dýralækni, til að taka að sér formennsku í félaginu, en hún var þess fullviss að það væri styrkur fyrir félagið að karlmaður sinnti þeirri stöðu. Hún sjálf var ritari stjórnar en tók við formennsku í félaginu nokkrum árum síðar. Hún átti þátt í að félagið hélt sína fyrstu hundasýningu í Eden í Hveragerði árið 1973. Sýningin vakti mikla athygli, aðsókn var mikil og færri komust að en vildu. Það var Sigríði mikilvægt að sýna almenningi hundinn í jákvæðu ljósi og á sýningunni mátti sjá fallega hunda sem hegðuðu sér vel, en voru ekki vandræðagemlingar sem ekki væru húsum hæfir, eins og Sigríður hafði á orði. Það var Kolur, íslenskur fjárhundur í eigu Sigríðar, sem vann fyrstu hundasýninguna. Kol þekkjum við vel, enda prýðir hann merki félagsins okkar enn í dag. Fljótlega eftir að Sigríður tók við formennsku í HRFÍ, setti hún sig í samband við formenn hundaræktarfélaga annarra Norðurlanda, sem tóku félagið undir sinn verndarvæng. Árið 1979 óskaði félagið eftir inngöngu í FCI, Alþjóðasamtök hundaræktarfélaga og var Sigríði boðið á þing samtakanna, þar sem félaginu var boðin aukaaðild sem og aðild að Norrænum samtökum hundaræktarfélaga, NKU. Með þessu móti fengu ættbókarskírteini HRFÍ alþjóðlega viðurkenningu. Þá vann hún ötullega að samningu fyrsta ræktunarmarkmiðs íslenska fjárhundsins og fékk þar góðan stuðning frá sænska hundaræktarfélaginu. Eftir að Sigríður lét af formennsku, hóf hún sýningadómaranám. Hún varð fyrsti dómari félagsins, dæmdi víða um Evrópu og hafði undir lokin réttindi til að dæma vel yfir fimmtíu hundakyn úr fjórum tegundahópum. Sem ræktandi var Sigríður að sjálfsögðu þekktust fyrir árangur sinn með íslenska fjárhundinn, en á síðari árum tók hún einnig miklu ástfóstri við Schnauzer hunda og ræktaði þá í mörg ár með góðum árangri. Árið 2004 var Sigríður heiðruð með gullmerki Hundaræktarfélagsins og árið 2008 sæmdi Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, Sigríði heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að ræktun íslenska fjárhundsins. Allt fram á hinsta dag var íslenski fjárhundurinn Sigríði hjartkær og eftir henni er haft að þjóðarhundurinn okkar sé lifandi listaverk sem okkur beri að varðveita. Fyrir hönd Hundaræktarfélags Íslands þakka ég Sigríði Pétursdóttur frá Ólafsvöllum merkilegt ævistarf við verndun íslenska fjárhundsins og framlag hennar til uppbyggingar starfsemi félagsins. Eftirlifandi eiginmanni, börnum og öðrum aðstandendum vottum við samúð okkar. Deyr fé deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. ​F.h. stjórnar HRFÍ Herdís Hallmarsdóttir Formaður Sámur 2. tbl. 44. árg. júní 2016 · 5